150. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2020.

fjárstuðningur til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

725. mál
[16:21]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ég styð þetta frumvarp enda mun það gagnast mjög mörgum fyrirtækjum. Hins vegar er sorglegt að ekki skuli vera stigin markvissari skref í að setja hindranir sem koma í veg fyrir að þeir aðilar sem af einhverjum ástæðum vilja koma sér hjá því að greiða allt sem þeir ættu að greiða í sameiginlega sjóði okkar geri það.

Hinum á þó ekki að refsa fyrir það og þess vegna styð ég frumvarpið. Ég held að á þessum tímum þar sem við áttum okkur á því enn betur en nokkurn tímann fyrr hversu mikilvæg samneysla okkar er og grunnþjónustan á ekki að taka það vettlingatökum ef einstaklingar, jafnvel þótt með löglegum hætti sé, nýti sér einhvers konar klókindi og leiðir til að komast hjá því að borga réttmæta hlutdeild til ríkissjóðs Íslands.