150. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2020.

ávana- og fíkniefni.

328. mál
[18:26]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég verð að byrja á að leiðrétta hv. þingmann sem talaði hérna á undan, það var ekki álit forsætisnefndar að hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir hefði sagt eitthvað rangt. Niðurstaða forsætisnefndar var að það skipti ekki máli. Það var bókstaflega niðurstaða nefndarinnar að það skipti ekki máli hvort hún hefði sagt satt eða ekki, það kom málinu ekki við. Dæmd skyldi hún vera hvort sem væri rétt.

Það er mikilvægt að ræða þetta meira og það verður rætt meira á fundum forsætisnefndar í framtíðinni, vil ég meina, sér í lagi núna þegar við fjöllum um siðareglur. Hins vegar vil ég hafna ásökunum um eineltistilburði í garð hv. þm. Ásmundar Friðrikssonar. Hann á það til að segja hluti sem fá mann til að brosa og aðra sem fá mann til að reiðast. Það er bara hluti af því að vera mannlegur og hafa tilfinningar og sjálfsagt má gæta vel að því að maður láti ekki tilfinningar sínar bitna á öðrum.

Ég óska síðan eftir því við virðulegan forseta að málfrelsi þingmanna verði rætt í forsætisnefnd í kjölfarið. Mér finnst augljóst að við útkljáum þetta ekki hér og nú, þótt ég verði reyndar að segja að mér finnst ærið tilefni til umræðna. Ég óska eftir því að forsætisnefnd fundi sérstaklega um málfrelsi þingmanna því að það er komið í ógöngur, ekki bara í þessu tilviki heldur almennt, hvernig hafður er hemill á málfrelsi stjórnarandstöðuþingmanna.