150. löggjafarþing — 104. fundur,  18. maí 2020.

tímabundnar heimildir til fjárhagslegrar endurskipulagningar atvinnufyrirtækja.

814. mál
[18:07]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um tímabundnar heimildir til fjárhagslegrar endurskipulagningar á fyrirtækjum. Frumvarpið er hluti af fleiri aðgerðum ríkisstjórnarinnar til aðstoðar fyrirtækjum. Með frumvarpinu er lagt til að komið verði á fót úrræði sem felur í sér nýja leið fyrir atvinnufyrirtæki til að endurskipuleggja fjárhag sinn. Er frumvarpið lagt fram til að aðstoða þau fyrirtæki sem lent hafa í fjárhagsvanda vegna þeirra aðstæðna sem skapast hafa vegna Covid-19 farsóttarinnar, en úrræðið er tímabundið þar sem það er sett fram í ljósi hinna sérstöku aðstæðna. Skal sækja um úrræðið fyrir 1. janúar 2021.

Hið nýja úrræði felur í sér að fyrirtækið, sem er í frumvarpinu kallað skuldari, getur samkvæmt ákvörðun dómara og að uppfylltum nánar tilteknum skilyrðum, fengið greiðsluskjól til að byrja með í þrjá mánuði en það getur verið framlengt í allt að 12 mánuði. Á þeim tíma getur skuldarinn unnið að endurskipulagningu á fjárhag sínum með stuðningi aðstoðarmanns og náð frjálsum samningum við kröfuhafa sína eða nauðasamningum. Við meðferð dómara á beiðni um framlengingu á úrræðinu er kröfuhöfum gefinn kostur á að koma fram sínum sjónarmiðum.

Frumvarpið er í stórum dráttum byggt á núverandi framkvæmd við greiðslustöðvun og nauðasamninga. Þó voru lögð til veigamikil frávik frá þeim reglum til einföldunar á framkvæmd og má þar helst nefna að í frumvarpinu er lögð til ný og einfaldari leið til að ná nauðasamningum.

Þá er jafnframt lögð til breyting á þeim kafla gjaldþrotaskiptalaga sem fjallar um nauðasamninga, að nauðasamningur geti náð til veðkrafna að ákveðnu leyti og er lagt til að það ákvæði verði varanlegt. Úrræðið er hugsað fyrir þau atvinnufyrirtæki sem uppfylla skilyrði; um að eiga undir lögsögu dómstóla hér á landi, að atvinnustarfsemi hafi ekki byrjað síðar en 1. desember 2019, að fyrirtækið hafi greitt fleiri en einum manni lágmarkslaun fyrir fullt starf í desember 2019 og í janúar og febrúar 2020, að mánaðarlegar heildartekjur af starfseminni hafi frá 1. mars 2020 dregist saman um meira en 75% í samanburði við meðaltal þriggja mánaða þar á undan eða að mánaðarlegar tekjur síðustu þriggja mánaða áður en sótt er um úrræðið hafi dregist saman um a.m.k. 75% í samanburði við sömu mánuði árið 2019, eða að fyrirsjáanlegt sé að heildartekjur af starfseminni á næstu þremur mánuðum verði 75% minni í samanburði við sama tíma á síðasta ári.

Jafnframt er skilyrði um að skuldir og rekstrarkostnaður sem falla á gjalddaga á næstu tveimur árum séu samanlagt meiri en heildarfjárhæð andvirðis peningaeignar eða krafna á hendur öðrum. Frá þeim tíma sem héraðsdómi berst beiðni um heimild til fjárhagslegrar endurskipulagningar kemst fyrirtækið í greiðsluskjól. Það er mikilvægt atriði og ólíkt því sem almennt gildir um greiðslustöðvun, sem gildir frá því að heimild til greiðslustöðvunar er veitt. Þá er einnig verulega slakað á þeim skilyrðum sem gerð eru til þeirra upplýsinga sem fram eiga að koma í beiðni um greiðsluskjól miðað við þær upplýsingar sem leggja þarf fram við beiðni um greiðslustöðvun.

Í frumvarpinu er aðaláherslan lögð á að stöðu skuldara megi rekja til þeirra aðstæðna sem skapast hafa vegna farsóttarinnar en ekki er gerð rík krafa um að nákvæmar upplýsingar um hvernig skuldari hyggst leysa úr vanda sínum liggi fyrir. Er skuldara þannig veitt ráðrúm til að meta þá kosti sem eru í stöðunni með aðstoðarmanni sínum eftir að hann kemst í greiðsluskjól. Meðan á greiðsluskjóli stendur er ekki heimilt að taka bú skuldara til gjaldþrotaskipta, gera fjárnám í eignum hans eða selja nauðungarsölu eða bera hann út úr húsnæðinu. Þannig veitir greiðsluskjólið mikilvæga vernd gegn öllum innheimtu- og þvingunarúrræðum á meðan á því stendur. Á meðan á greiðsluskjólinu stendur er skuldara óheimilt að ráðstafa eignum sínum, stofna til skuldbindinga og greiða skuldir sínar án samþykkis aðstoðarmannsins og samkvæmt sérstökum heimildum í lögum.

Þá er rétt að vekja athygli á að í þessu felst að skylda skuldara samkvæmt 2. mgr. 64 gr. gjaldþrotaskiptalaga er gerð óvirk. Skuldara sem sækir um greiðsluskjól er því ekki skylt, að viðlagðri ábyrgð stjórnenda fyrirtækisins, að fara fram á gjaldþrotaskipti á búinu, eins og kveðið er á um í tilvitnaðri grein. Á meðan á greiðsluskjóli stendur gefst skuldara ráðrúm til að fara yfir stöðu sína með aðstoðarmanni. Greiðsluskjóli getur lokið með því að tími þess renni út þar sem starfsemi skuldara er komin án frekari aðgerða í rétt horf en skuldari getur einnig hafa náð frjálsum samningum við kröfuhafa.

Það getur einnig orðið niðurstaðan að rétt sé að reyna að ná nauðasamningum við kröfuhafa. En í frumvarpinu er lögð til sú nýjung að unnt verði að koma á nauðasamningi með einfaldari aðgerð en hefðbundið er. Slíkur nauðasamningur getur tekið til þess að felldir verði niður vextir, innheimtukostnaður og eftirstæðar kröfur eða að lán verði framlengd, þar með talið þau sem tryggð eru með veði. Er það nýjung því að nauðasamningar taka ekki til krafna sem tryggðar eru með veði.

Þá er einungis nauðsynlegt að umsjónarmaður samþykki nauðasamninginn og héraðsdómur staðfesti hann. Ekki þarf að fara í atkvæðagreiðslu meðal kröfuhafa. Kjósi skuldari að leita hefðbundins nauðasamnings án undanfarandi gjaldþrotaskipta samkvæmt ákvæðum gjaldþrotaskiptalaga er honum það heimilt með samþykki umsjónarmanns síns. Er hér um einföldun á ferlinu að ræða frá því sem gildir um hefðbundna nauðasamninga þar sem ekki þarf sérstaka ákvörðun dómara til að hefja nauðasamningsumleitanir.

Þá er það nýjung í frumvarpinu, eins og áður hefur verið nefnt, að slíkur hefðbundinn nauðasamningur getur einnig tekið til krafna sem tryggðar eru með veði. Þannig megi í nauðasamningi kveða á um breytingu á greiðsluskilmálum samningsveðkröfu og þar á meðal að lengja lánstíma eða fresta greiðslum í allt að þrjú ár.

Í upphafi ferlisins er skuldara heimilt að fá sér til aðstoðar lögmann eða endurskoðanda sem hann ræður sjálfur. Fari skuldari hins vegar í nauðasamninga, hvort sem það er hinn einfaldari nauðasamningur eða hefðbundinn, ber honum að snúa sér til héraðsdóms og fá sér skipaðan umsjónarmann sem skal vera lögmaður. Nauðasamningar eru annars eðlis en frjálsir samningar við kröfuhafa og byggja á ákveðnum reglum um hvernig fara skuli með. Er því nauðsynlegt að gera þá kröfu til slíks umsjónarmanns að hann hafi lögfræðilega þekkingu á ferlinu. Ef lögmaður hefur í upphafi aðstoðarmann skuldara má skipa hann áfram sem umsjónarmann. En ef annar maður kemur í stað aðstoðarmannsins ber hinn fyrri ábyrgð á því sem framkvæmt hefur verið áður en nýr umsjónarmaður tekur við.

Þá eru í frumvarpinu lagðar til nokkrar breytingar á lögum um gjaldþrotaskipti og fleira. Eins og áður hefur verið nefnt er lagt til að nauðasamningur, hvort sem um einfaldari gerð hans eða hefðbunda er að ræða, geti tekið til krafna sem tryggðar eru með samningsveði. Er lagt til að sú breyting á gjaldþrotaskiptalögum sé varanleg og í þessu skyni er lagt til að sett verði ný grein í lögin þar sem kveðið er um þessar heimildir. Aðrar breytingar á gjaldþrotaskiptalögum eru aðlögun að þessari nýju grein.

Hæstv. forseti. Ég hef nú farið yfir helstu atriði frumvarpsins sem miða öll að því að reyna að létta undir með fyrirtækjum og gefa þeim skjól á meðan ráðrúm gefst um hvernig staðan verður og hvernig framhaldið verður og hvað blasir við fyrirtækinu. Þetta er mjög mikilvægt úrræði og ég vona að það nýtist sem flestum vel til að geta hafið endurreisn síns fyrirtækis fljótt og örugglega og komist aftur á réttan kjöl þegar birta fer til í efnahagslífinu.

Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.