150. löggjafarþing — 105. fundur,  19. maí 2020.

málefni aldraðra.

383. mál
[14:35]
Horfa

Frsm. velfn. (Ásmundur Friðriksson) (S):

Virðulegi forseti. Ég flyt hér nefndarálit um nauðsynlegt samræmingarmál milli tveggja lagabálka um frumvarp til laga um breytingu á lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999 (öldungaráð). Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ernu Kristínu Blöndal, Birnu Sigurðardóttur og Þór Hauksson Reykdal frá félagsmálaráðuneytinu. Nefndinni barst ein umsögn frá öldungaráði Akraneskaupstaðar.

Efni og markmið frumvarpsins: Árið 2018 var gerð breyting á stjórnsýslu öldrunarmála með lögum nr. 37/2018, um breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Markmið þeirra breytinga var m.a. að innleiða samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. M.a. var gerð breyting á svæðaskiptingu og skipan fulltrúa í öldungaráð. Á sama tíma var gerð breyting á lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999, og hugtakinu „þjónustuhópur aldraðra“ breytt í hugtakið „öldungaráð“. Hins vegar var ekki gerð samhliða breyting á svæðaskiptingu og skipun fulltrúa í lögum um málefni aldraðra líkt og gert var í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga. Markmið þessa frumvarps er að samræma ákvæði laganna.

Umfjöllun nefndarinnar: Nefndinni barst ein umsögn um málið og var hún jákvæð. Í ljósi þess að um er að ræða nauðsynlega breytingu til að samræma ákvæði milli tveggja lagabálka og að sátt er um málið leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Anna Kolbrún Árnadóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Hanna Katrín Friðriksson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk áliti þessu. Undir nefndarálitið rita, auk þess er hér stendur, Helga Vala Helgadóttir, Ólafur Þór Gunnarsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Halla Signý Kristjánsdóttir, Halldóra Mogensen, Lilja Rafney Magnúsdóttir og Vilhjálmur Árnason.