150. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2020.

ávana- og fíkniefni.

328. mál
[15:56]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Oft er fátt um svör ef málið er stórt. Ég verð bara að segja alveg eins og er að í þessari umræðu verðum við að átta okkur á því að fíkn, hvort sem hún heitir eiturlyfjafíkn, áfengisfíkn, spilafíkn eða gróðafíkn, hefur fylgt mannkyninu frá örófi alda. Hvað höfum við reynt að gera aftur og aftur? Loka á þetta með lögum og bönnum. Hefur það skilað árangri? Nei, ástandið versnar alltaf.

Ég er alveg sammála hv. þm. Brynjari Níelssyni að mörgu leyti um að hræsnin hjá okkur sé alveg ótrúleg. Við megum fara í Áfengisverslun ríkisins og kaupa vín. Við megum kaupa vín í áfengisverslun þegar við förum úr landi og komum til landsins en við megum ekki fá það í pósti. Við megum hins vegar fara í ríkið, kaupa vín fyrir aðra, setja það í póst og senda út á land. Við búum til stórfurðulegar reglur að mörgu leyti.

Ég styð neyslurými heils hugar. Mér finnst ömurlegt til þess að vita að einstaklingar séu að sprauta sig jafnvel á klósettum, í ömurlegum aðstæðum, kjallaraholum og á leikvöllum. Eitt sem hefur slegið mig líka mikið er að í Danmörku hurfu 90% af nálum á ákveðnu svæði. Nálarnar voru bara á almannafæri.

Við eigum að hugsa aðeins út fyrir kassann. Við erum búin að reyna allt hitt. Það er kominn tími til að við reynum eitthvað annað og hættum að líta á þetta sem ólöglegt, þetta er bara fíkn sem þarf að taka á.