150. löggjafarþing — 107. fundur,  20. maí 2020.

svifryk.

571. mál
[17:51]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmönnum kærlega fyrir þessa ágætu umræðu um svifryk. Til að draga saman mál mitt held ég að almennt gildi að við þurfum að draga úr uppsprettum svifryksins vegna þess að þannig náum við auðvitað mestum árangri. Vegna þess svifryks sem verður til þarf að reyna að beita aðferðum og aðgerðum til að draga úr því að það geti hreinlega þyrlast upp, ef svo má að orði komast.

Auðvitað þurfum við að takast á við landeyðingu á Íslandi. Ég tek undir með hv. þm. Líneik Önnu Sævarsdóttur að þar er náttúrlega risastórt verkefni að vinna. Sem betur fer hefur núverandi ríkisstjórn sett stóraukið fjármagn í landgræðslu og ekki síst að reyna að koma í veg fyrir að land eyðist.

Til að svara hv. þm. Bergþóri Ólasyni um hvort ég hafi tekið þessi mál upp við Reykjavíkurborg er svarið við því: Nei, það hef ég ekki gert. Ábyrgðin á því að gera viðbragðsáætlanirnar til skemmri tíma liggur hjá heilbrigðiseftirlitum sveitarfélaganna. Það þýðir ekki að ég geti ekki talað við borgina en ég hef ekki talað við hana um þessi mál.

Ég vil síðan nefna að lokum að áætlunina Hreint loft til framtíðar sem ráðuneytið gaf út 2017 ber að endurskoða á fjögurra ára fresti. Fyrsta endurskoðunin mun fara fram á næsta ári þannig að ný áætlun lítur væntanlega dagsins ljós í lok næsta árs.