150. löggjafarþing — 107. fundur,  20. maí 2020.

trúnaðarmaður fólks með langvinna sjúkdóma og íbúa dvalar- og hjúkrunarheimila.

605. mál
[18:48]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur fyrir ágæta ræðu. Mig langar að koma að nokkrum atriðum. Það er einmitt þetta sem hæstv. ráðherra kom inn á, að það er svo mikilvægt að vilji sjúklings, vilji þess einstaklings sem fær þjónustuna, nái fram. Við höfum þar tæki eins og lífsskrána, en hún hefur því miður ekki verið mikið notuð, m.a. vegna ýmissa ágalla sem menn hafa getað bent á þar, en engu að síður er skráin mögulega mikilvægt tæki. Þá má líka kannski taka inn í þetta að það mætti hugsa sér að fela einhverjum tilteknum einstaklingi sem er í meðferðarsambandi við sjúkling þetta hlutverk, ekkert endilega lækni hans eða hjúkrunarfræðingi, heldur hefði jafnvel einhver annar heilbrigðisstarfsmaður þetta hlutverk, þannig að ekki væri verið að skipa sérstaka stöðu. Þetta hefur m.a. verið reynt víða úti í heimi sem heitir á ensku svokallaður „Care Coordinator“.

(Forseti (ÞorS): Forseti minnir í vinsemd á að þingmálið er íslenska.)