150. löggjafarþing — 107. fundur,  20. maí 2020.

ákvæði laga um vegi og aðra innviði.

632. mál
[19:49]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ásmundur Friðriksson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka ráðherranum fyrir greinargóð svör. Það var einmitt ferð hæstv. ráðherra norður þegar línurnar lágu allar niðri þar, og viðtal við hann í sjónvarpinu sem varð kveikjan að þessari fyrirspurn. Þar kom fram að kannski þyrfti að einfalda kerfið. Það vill þannig til að í dag birtist eftir mig grein í Morgunblaðinu þar sem ég fjalla um þessi mál. Hæstv. ráðherra talar um að þessir hlutir varði allan almenning og að við gerum okkur grein fyrir því og sveitarfélögin ekki síst. En kæruleiðirnar sem í boði eru á Íslandi til að koma í veg fyrir framkvæmdir og seinka þeim, eru náttúrlega með ólíkindum. Af því að hæstv. ráðherra talaði um Norðurlöndin og nágrannalöndin þá er himinn og haf þar á milli og hvað Íslendingar, sveitarfélög og einstaklingar, hafa margar leiðir til að kæra slíkar framkvæmdir. Í grein minni kemur fram að hægt er að kæra slíkar framkvæmdir allt upp í sjö skipti og koma í veg fyrir að þær nái fram að ganga. En annars staðar á Norðurlöndunum, Danmörku, Finnlandi, Noregi, Svíþjóð, og síðan Skotlandi, í löndunum sem eru næst okkur, er kannski hægt að kæra slíka framkvæmd á einu stigi. Það er nokkuð sem við þurfum að skoða.

Ég vil að nefna það hér, af því að ég hef nokkrar sekúndur, að verið er að ljúka hönnun á Reykjanesbraut og færa til stuttan kafla, 5 km kafla á 50 km langri braut. Það þarf allt að fara aftur í umhverfismat og dýrar umhverfisáætlanir þó að það liggi alveg ljóst fyrir að umhverfismat getur nú ekki breytt mjög miklu varðandi 5 km vegspotta sem vantar inn í 50 km braut.

En ég þakka kærlega fyrir.