150. löggjafarþing — 107. fundur,  20. maí 2020.

bifreiðaskoðanir og þjónustuskylda.

651. mál
[20:06]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka aftur fyrir þessa fyrirspurn því að við gætum í raun og veru verið að ræða nánast hvaða þjónustu sem er á landinu. Þetta er tilhneigingin sem við höfum séð, að menn sinna sífellt verr dreifbýlustu svæðunum af því að það er ekki nógu arðbært. Við erum þar af leiðandi oft og tíðum í mörgum af þeim kerfum sem við erum með að setja upp svæði þar sem samkeppnisaðstæður eru og svo að setja upp stuðningskerfi af hálfu ríkisins til að tryggja að lágmarksþjónusta fari fram. Það kæmi þar af leiðandi alveg til greina á þessu sviði, þó að ég ítreki að ég tel að fyrirtækin sem sinna þessari starfsemi eigi að gera það. Það er auðvitað hægt að þvinga það fram með ýmsum hætti. Það mætti auðvitað hugsa sér einhvers konar landsvæðisleg útboð þar sem menn yrðu að gjöra svo vel að sinna öllum á hverju svæði.

Ég vil líka taka undir með hv. þingmönnum Þórunni Egilsdóttur og Líneik Önnu Sævarsdóttur að það er algerlega óboðlegt að fara með farartæki, sem fer kannski aldrei út fyrir 15 km radíus alla jafna, og keyra fleiri hundruð kílómetra til þess eins að fara í skoðun. En ég tel líka að skoða eigi hinar færanlegu skoðunarstofur. Þær gætu leyst þetta. Einnig mætti athuga hvort hægt væri að semja við bifreiðaverkstæðin. En ég geri mér alveg grein fyrir því að þær kröfur sem við setjum um hlutleysi þar sem eru ekki mörg bifreiðaverkstæði og geta þá ekki sinnt bæði þjónustunni og viðhaldinu og einnig hinni óháðu skoðun, myndu gera að verkum að það gæti verið vandkvæðum bundið að gera þetta. En ég tel að með þessari umræðu höfum við vakið athygli á þessu og við í ráðuneytinu munum klárlega skoða hvort hægt sé að gera eitthvað til að tryggja lágmarksþjónustu.