150. löggjafarþing — 107. fundur,  20. maí 2020.

öryggismál og umferðarþjónusta í jarðgöngum.

656. mál
[20:19]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Þetta er stuttur tími sem maður hefur hér, það er svipað og að fara í gegnum Arnarneshamarinn. Ég hvet hv. þm. Guðjón Brjánsson til að koma oftar til Bolungarvíkur því að þá getur hann hlustað á útvarpið þar. Hvað varðar símamálin er síminn í Vestfjarðagöngunum bara fyrir þá sem eru þjónustuþegar Símans, ekki t.d. Vodafone. Það þarf kannski að samræma. En það skiptir virkilega máli að samvinna Vegagerðarinnar og sveitarfélaga sé höfð að leiðarljósi vegna öryggisatriða sem snerta t.d. brunavarnir. Hvert sveitarfélag ber ábyrgð á sínu slökkviliði og þá samvinnu þarf að samræma um landið. Ég er alveg sammála því. En mikilvægt er að öryggisáætlun fyrir hver göng sé góð og þar þyrfti að vera samræmi. En auðvitað er það erfitt vegna þess að göngin um landið eru misgömul, eins og komið hefur fram, og öryggisatriði eru misjafnlega uppfyllt. Ég vildi vekja athygli á að í nýjustu göngunum eru neyðarrými sem eru mjög mikilvæg fyrir fólk sem lendir í erfiðum aðstæðum.