150. löggjafarþing — 107. fundur,  20. maí 2020.

endurskoðun reglugerðar nr. 189/1990.

601. mál
[21:05]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Já, reglugerðin er í endurskoðun og áform okkar í ráðuneytinu snúa að því að ljúka þeirri endurskoðun á þessu ári. Ég vil líka af þessu tilefni nefna að ég átti þess kost í morgun að fara og skoða nýja tegund af, hvað á maður segja, gróðurhúsi á Íslandi sem er þeirrar gerðar að þar er nánast algerlega hrein framleiðsla á salati, blómum og hvaðeina. Þetta er í raun hús í húsi og í lokuðu rými og er nánast algerlega hrein framleiðsla, notar til muna minna vatn, til muna minna rafmagn o.s.frv. Þetta fyrirtæki er byggt upp af miklum metnaði í samstarfi við erlend fyrirtæki m.a., tækniþekking þar sem nýtt er hér. Eins og ég gat um áðan er þetta eitt stærsta fyrirtæki sinnar gerðar í Evrópu og algjör nýjung á þessu sviði og býður í raun upp á allt annan veruleika en við höfum verið með í slíkri framleiðslu til þessa. Þetta fyrirtæki heitir Vaxa og er þegar komið með framleiðslu sína á markað hér á landi, gríðarlega góð vara. Þeir ætla sér stóra hluti og ég held að þeir eigi mjög mikla möguleika vegna þess að framleiðsla þeirra er á allan hátt mjög einföld, hrein og mikil gæði. Í þessum efnum eru að verða stórstígar framfarir og hraðinn í þeim á að mínu mati einfaldlega eftir að aukast og hugsanlega þurfum við að taka mið af því við endurskoðun þeirrar reglugerðar sem hér hefur verið til umfjöllunar.