150. löggjafarþing — 107. fundur,  20. maí 2020.

fagháskólanám fyrir sjúkraliða.

619. mál
[21:13]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir svörin og ég vil fagna sérstaklega þeirri yfirlýsingu sem hér næst fram um að það verði boðið upp á þetta nám fyrir sjúkraliða, eins og ég skil orð hæstv. ráðherra. Það er mikið fagnaðarefni. Þetta er búið að vera baráttumál sjúkraliða í talsverðan tíma, sérstaklega eftir að þetta nám var fellt niður á sínum tíma í fjölbrautaskólanum. Ég held að hér séu á ferðinni tímamót sem sjúkraliðar muni taka eftir og er virkilega ánægjulegt og sýnir í verki að okkur er annt um þessa stétt og við hlustum á hana, sama hvar við stöndum í pólitík. Þetta er eitt af þeim málum sem við getum svo sannarlega verið öll sammála um að þurfi að gera vel og gera í fullkomnu samræmi við vilja stéttarinnar.

Orðum ráðherrans um að námið muni hefjast strax í haust fagna ég sérstaklega. Ég hvet hæstv. ráðherra sömuleiðis, ef á þarf að halda, til að tryggja fjármagn og ég treysti því að ráðherrann staðfesti það hér á eftir að fjármagn fylgi þessu. Eitthvað kostar þetta þó að í stóra samhenginu sé það ekki mikið miðað við þann ávinning sem við fáum út úr náminu. Það skiptir máli að við sýnum að þetta séu ekki bara orðin tóm heldur að fjármagn fylgi þessum fyrirheitum. Við erum með alls konar aðgerðapakka hér, við erum að ræða um fjárauka og fjárlög, við erum að endurskoða fjármálaáætlun og það væri óskandi og eðlilegt að það sæist í þeim skjölum að við séum hér að fylgja eftir óskum sjúkraliða og stuðla að því að staðið verði myndarlega að þessu námi. Þetta skiptir miklu máli og ég held að þrýstingur bæði innan þings og utan skipti máli.

Ég tek undir orð ráðherra um að við þurfum að hugsa hlýlega til þessarar stéttar og ég vil úr þessum ræðustól sömuleiðis færa mínar bestu þakkir fyrir þá vinnu sem sjúkraliðar hafa sinnt í því fordæmalausa ástandi sem þjóðin hefur búið við. Þetta er lykilstétt sem við getum ekki verið án og við þurfum svo sannarlega að líta oftar til hagsmuna sjúkraliða.