150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

upplýsingaskylda stórra fyrirtækja.

[15:30]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Það frumvarp sem ferðamála,- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra lagði hér fram og er væntanlega til umfjöllunar í hv. atvinnuveganefnd eða efnahags- og viðskiptanefnd, ég þekki það ekki, snýst um ríkari upplýsingaskyldu hlutfallslega stórra fyrirtækja sem haft geta mikil kerfislæg áhrif í íslensku atvinnulífi. Frumvarpið var boðað í þeim aðgerðum sem kynntar voru í nóvember. Síðan voru ýmsar aðrar aðgerðir boðaðar og þá sérstaklega af hálfu hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem verið hefur með til skoðunar tillögur um bætt eftirlit með fiskveiðiauðlindinni og fleira.

Sjávarútvegsfyrirtækin féllu undir það frumvarp sem hæstv. ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra lagði fram, og eins sagt var réttilega. Er málið boðað á haustþingi, þ.e. frumvarp sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um bætt eftirlit með fiskveiðiauðlindinni, ef hv. þingmaður er að vísa til þess.

Ég tel því að hv. þingmaður þurfi að skýra það betur því að annars vegar er þetta frumvarp frá ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra sem komið hefur fram, og hins vegar frumvarp frá hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem er boðað á haustþingi.