150. löggjafarþing — 111. fundur,  29. maí 2020.

stuðningur úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti.

811. mál
[22:35]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég hef áður sagt um þetta mál að ég tel að þessi ákvörðun muni eldast afar illa, þessi ákvörðun sem stjórnarliðar hyggjast nú taka. Fjárhagslegir hvatar til uppsagna á tímum þar sem við viljum halda efnahagslífinu gangandi eru ekki til þess fallnir að veita þá viðspyrnu sem ríkisstjórnin talar viðstöðulaust um að hún ætli að veita íslensku atvinnulífi. Mér er það minnisstætt að þegar hæstv. forsætisráðherra Katrín Jakobsdóttir var spurð í Silfurþætti um daginn hvort hún ætti ekki að hafa meira samráð við stjórnarandstöðuna þá svaraði hún á þá leið að á endanum væru það þau sem bæru ábyrgð á þessari ákvarðanatöku þótt vissulega myndi hún halda stjórnarandstöðunni upplýstri um fyrirætlanir sínar. Ég vil því bara að koma hér og segja að ábyrgðin á þessum mistökum er fullkomlega á herðum ríkisstjórnarinnar eins og sagan mun sýna.