150. löggjafarþing — 114. fundur,  8. júní 2020.

kjaradeila hjúkrunarfræðinga.

[15:52]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Að sjálfsögðu höfum við öll áhyggjur af því að ná ekki niðurstöðu í samninga við mikilvægar heilbrigðisstéttir. Við höfum þó samið við rétt u.þ.b. 80% allra opinberra starfsmanna sem voru með samninga lausa á síðastliðnu ári. Við sömdum líka við hjúkrunarfræðinga fyrir nokkrum vikum en þeir samningar voru því miður felldir naumlega í atkvæðagreiðslu þeirra. Á meðan við eigum þetta samtal hér geri ég ráð fyrir að enn standi yfir fundur hjá ríkissáttasemjara milli samninganefnda ríkisins og hjúkrunarfræðinga um næstu skref sem við viljum taka til þess að fá góða lausn fyrir báða samningsaðila. Við getum hins vegar ekki samið með þeim hætti að forsenduákvæði annarra samninga ríkisins séu öll í uppnámi. Það getum við ekki gert. Við leggjum áherslu á að halda okkur innan þess svigrúms sem aðrir samningar hafa mótað og eru að verulegu leyti byggðir á svigrúminu í lífskjarasamningunum.

En við höfum náð tímamótaáföngum í þessari samningalotu. Má ég nefna sem dæmi styttingu vinnuvikunnar. Fyrir þá sem ganga mjög langar vaktir er verið að stytta vinnuvikuna niður í allt að 32 klukkustundir, en almenna reglan er að stytta hana niður í 36 klukkustundir. Það var ein af meginkröfum. Við höfum sömuleiðis verið að vinna að því að hækka verulega grunnlaunin. Svo virðist sem það eina sem út af standi sé almenni launaliðurinn, en það er akkúrat fundarefni dagsins í dag að reyna að átta sig á því hvað kemur í veg fyrir að við ljúkum samningsgerðinni að nýju eftir þessa atkvæðagreiðslu.

Ég hef í sjálfu sér ekkert meira um þetta mál að segja en að vilji ríkisins hefur alla tíð staðið til þess að ljúka samningum og hefur verið ágætisgangur í því samtali undanfarna daga.