150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[19:08]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Efni þessa þingmáls og frumvarps er ekki um forgangsröð verkefna og hvernig þeim er upp stillt. Hins vegar kom fram við umfjöllun málsins í fjárlaganefnd að raunverulega eru mörg verk þar nú þegar hafin og þar var m.a. nefnt það atriði sem hv. þingmaður nefndi, eins og umferðarstýring og búnaður til að stýra umferð í gegnum umferðarljós og fleira. Það verkefni er í sjálfu sér farið af stað.

Þeim mun mikilvægara er að koma lagaumgjörð utan um félagið þannig að það geti farið að stíga stærri skref og fleiri til að undirbúa framkvæmdir sem hv. þingmaður og ég erum innilega sammála um að er mjög nauðsynlegt að ráðast í til að greiða fyrir umferð. Það skiptir ekki bara höfuðborgarsvæðið máli. Það skiptir líka allt landið máli og ekki síst þekkjum við hv. þingmaður það úr okkar ágæta kjördæmi hvernig horft er til þess svæðis til að greiða úr samgöngum.

Þetta er farvegur, félag sem er stofnað utan um það að takast á við forgangsröðun verkefna. Frumvarpinu fylgir listi yfir fjárstreymi og framkvæmdir sem ég vísa þá bara í, framkvæmda- og fjárstreymisáætlun, einmitt um þann hluta sem snýr að framkvæmd. Staðsetningu mannvirkja, undirbúning og hraða þeirra verður farið með í þessu félagi sem við vísum til og er verið að stofna umgjörð utan um hér. Ég vil líka benda á að við erum að taka mjög myndarlega utan um það í afgreiðslu fjárlaganefndar hver aðkoma þingsins að undirbúningi framkvæmda verður þannig að framkvæmdaáætlun sé á hverjum tíma útlistuð í samgönguáætlun þingsins og meðferð þingsins á öðrum samgöngumálum hér í landinu.