150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[19:17]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Í 6. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að fullbúnum samgöngumannvirkjum verði ráðstafað ýmist til ríkis eða viðkomandi sveitarfélags. Í lögunum er hins vegar ekki að sjá hvernig fara skuli með þau tilvik þegar fullbúin samgöngumannvirki reynast dýrari eða ódýrari en sem nemur verðmæti eignarhluta þess sem fær mannvirkið. Er þetta ekki annmarki, hv. þingmaður, að ekki skuli vera tekið á því hvernig bregðast skuli við umframkostnaði verkefna, falli hann til? Við þekkjum það að í mörgum framkvæmdum þegar kemur að opinberum hlutafélögum fer kostnaðurinn úr böndunum, einnig í vegaframkvæmdum, og við getum nefnt margar framkvæmdir þar sem menn hafa farið fram úr áætlunum.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort það sé ekki annmarki. Auk þess vil ég nefna í lokin þegar rætt er (Forseti hringir.) um Keldnalandið, að ekki er að finna (Forseti hringir.) neinar leiðbeiningar um það í frumvarpinu til hvaða (Forseti hringir.) annars lands er horft, sem er nefnt sérstaklega í frumvarpinu.

(Forseti (ÞorS): Enn minnir forseti á tímamörk.)