150. löggjafarþing — 125. fundur,  23. júní 2020.

almennar stjórnmálaumræður (eldhúsdagsumræður).

[20:36]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U):

Forseti. Góðir áhorfendur. Undanfarnar vikur hafa sýnt að samfélagið getur tekist á við stærstu áskoranir ef viljinn er fyrir hendi. Róttækar breytingar urðu á lífi okkar allra, ríkið hefur gripið til risavaxinna aðgerða og framlínustéttir hafa lagt gríðarlega mikið á sig. Allt gerðist nánast fyrirvaralaust með það eina markmið að við öll sem byggjum þetta land kæmumst sem best í gegnum heimsfaraldur kórónuveiru.

Þessi reynsla ætti að vera okkur innblástur. Það er hægt að hugsa stórt og það er hægt að grípa til stórra og skjótvirkra aðgerða þegar þörfin er mikil. Tilefnin hafa oft áður verið til staðar. Mig langar að nefna þrjú mál sem sannarlega þyrftu á sambærilegum viðbrögðum að halda og kórónuveiran.

Mér verður hugsað til þess þegar ég tók í fyrsta sinn þátt í eldhúsdegi. Þá var árið 2015 og ég nefndi sérstaklega mótmælin #FreeTheNipple, þar sem ungar konur og stúlkur vöktu almenning til vitundar um stafrænt kynferðisofbeldi. Ýmislegt hefur gerst síðan, en meinið sjálft er enn til staðar. Lög um stafrænt kynferðisofbeldi — sem var meginkrafa mótmælanna — eru loksins boðuð næsta haust.

Það tekur stjórnmálin sex ár að bregðast við þessu skýra og afmarkaða ákalli. Stúlkurnar sem mótmæltu eru orðnar fullorðnar og hafa fengið skýr skilaboð um að þeirra rödd, þeirra öryggi og þeirra mótmæli séu aldeilis ekki í forgangi.

Þá má ég til með að nefna loftslagsmálin. „Aðgerðir strax!“ hrópar ungt fólk um allan heim til að berjast fyrir framtíðinni, enda koma saman í loftslagsmálunum öll helstu baráttumál þess samfélags sem við viljum byggja. Loftslagsréttlæti er grundvöllurinn að heilbrigði, jöfnuði, jafnrétti og friði á komandi árum og áratugum.

Ríkisstjórnin lagði fram fyrstu aðgerðaáætlun sína í loftslagsmálum haustið 2018, en hún gat varla talist fullgerð. Í dag var loksins kynnt uppfærð og fullunnin aðgerðaáætlun, ári síðar en til stóð. Þar er sem betur fer gengið lengra í að meta kostnað og árangur aðgerða en áður. Eitt kemur hins vegar sérstaklega á óvart í nýrri aðgerðaáætlun.

Samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda er áætlaður 35%. Þetta markmið í nýju áætluninni er það sama og í þeirri fyrri, þar sem boðaður var 30–40% samdráttur í losun. Metnaður ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum er sem sagt hinn sami — nánast upp á prósentustig — og hann var fyrir tveimur árum, þó að í milltíðinni hafi öll þróun verið á þá leið að þörf væri á miklu róttækari aðgerðum.

Fjármagnið er stóraukið. Fjármagnið í áætluninni verður 9 milljarðar á ári, en ef við setjum þetta í samhengi samþykkti þingið svipaða upphæð, um 8 milljarða, í endurgreiðslu á virðisaukaskatti á þessu ári vegna endurbóta á húsnæði. Átakið Allir vinna fær sem sagt álíka upphæð og loftslagspakki ríkisstjórnarinnar.

Loks vil ég nefna bylgju mótmæla sem farið hefur um heiminn gegn kynþáttahatri og fordómum. Upphafið er Black Lives Matter hreyfingin og lögregluofbeldi í Bandaríkjunum, en þetta ætti að vera okkur öllum tilefni til að horfast í augu við þau vandamál sem eru hér á landi. Það kallar á róttæka skoðun á flestum sviðum.

Dómsmálaráðherra lagði t.d. nýlega fram frumvarp sem snýst um enn meiri skilvirkni í að senda hælisleitendur til landa sem eru orðin hættuleg fyrir hælisleitendur.

Lögreglan vígði nýlega landamærabíl sinn með því að gera rassíur á vinnustöðum og einblínir þar á aðgerðir gegn vinnandi fólki og að vísa því úr landi. Ekkert virðist hins vegar gert til að draga atvinnurekendur til ábyrgðar, enda virðist mansalsáætlun ríkisstjórnarinnar í frosti.

Í stað þess að fara af fullum þunga í að gera samfélagið öruggt fyrir þann fjölbreytta hóp fólks sem landið byggir velja stjórnvöld hörku fram yfir mannúð í samskiptum sínum við innflytjendur, þrátt fyrir ítrekað ákall almennings um annað.

Á síðustu mánuðum höfum við séð hvernig samfélagið getur breyst í neyðarástandi. Á þeim umbrotatímum sem við upplifum eru kynbundið ofbeldi, rasismi og loftslagsmál ekki minna neyðarástand en heimsfaraldur kórónuveiru. Fólk á skilið að brugðist sé við þeim af sama krafti.