150. löggjafarþing — 128. fundur,  26. júní 2020.

félög til almannaheilla.

181. mál
[18:54]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti með frávísunartillögu um frumvarp til laga um félög til almannaheilla frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar. Frumvarpið á rætur að rekja til almannaheillasamtaka þriðja geirans, eða frumkvæðis þeirra öllu heldur, og undirbúningsvinnu starfshóps sem skilaði skýrslu. Sú vinna átti sér stað fyrir rúmum áratug. Þess vegna má segja, virðulegi forseti, að það sé ekki léttbært að klára málið með þessum hætti, með frávísun. Nokkur tími er liðinn, vönduð vinna er búin að vera í undirbúningi alla tíð og málið er nú lagt fram í þriðja sinn hér á Alþingi. Það var lagt fram í fyrsta sinn á 145. löggjafarþingi, aftur á því 149. og svo að nýju á þessu þingi.

Því er von að spurt sé af hverju við klárum einfaldlega ekki þetta mál. Það er ekki hægt að bera það fyrir sig að nefndin hafi ekki fjallað nægilega um málið eða að umsagnir skorti. Fjölmargir aðilar hafa í umfjöllun um þetta mál í gegnum tíðina sent umsagnir um það og komið á fund nefndarinnar, eins og verið hefur í þessu tilviki á þessu þingi. Þeir eru taldir upp í nefndarálitinu. Vissulega eru þó fjölmargir aðilar sem frumvarpið nær til sem ekki komu að málinu á þessu þingi en hafa gert það áður. Þeir eru því ekki í þessari upptalningu. Það breytir ekki því að málið hefur þroskast og tekið breytingum og flestir verða, eftir því sem tíminn líður, jákvæðari gagnvart efni þess. Margir bíða hreinlega eftir og hafa kallað eftir því að við klárum málið og að samþykkt verði heildarlöggjöf um starfsemi félaga sem starfa að almannaheillum.

Til upprifjunar eru helstu rökin fyrir tilgangi þess eða þörfina á því að heildstæðar reglur gildi um þetta félagaform að það skiptir mörg félög máli sem starfa að almannaheill, til að mynda þegar félög fá greiðslur frá hinu opinbera eða sinna opinberri þjónustu samkvæmt samningum við ríki og sveitarfélög. Með frumvarpinu er lagt til að gildi taki ný heildarlög þar sem komið verði á nýju félagaformi félaga til almannaheilla og því mótaður lagarammi þar sem fram komi reglur um stofnun, meginefni samþykkta, félagsaðild, ákvarðanatöku og stjórnun slíkra félaga. Meiri hlutinn tekur undir markmið frumvarpsins og telur nauðsynlegt að settur verði lagarammi um félagsform og starfsemi félaga til almannaheilla líkt og lagt er til í frumvarpinu.

Hins vegar telur meiri hlutinn að ekki verði hjá því komist að taka til frekari skoðunar gagnrýni sem hefur komið fram, m.a. frá stórum heildarsamtökum eins og Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands, Ungmennafélagi Íslands og fleiri aðilum, í gegnum tíðina sem útskýrir þá staðreynd að málið hefur aldrei klárast í fullri sátt.

Það sem ég vil þó nefna hér og hefur fylgt málinu, og þetta mál er því miður ekki einsdæmi um, er að frá byrjun, í undirbúningi málsins, hefur vantað öflugra samráð við þau fjöldasamtök sem ég nefndi hér og fleiri. Því má segja að afgreiðslan nú, með frávísun, sé viðleitni nefndarinnar til að koma slíku samtali á. Ég vísa því til ráðuneytis að nýta tímann vel og ræða það sjónarmið þeirra, sem vissulega er, að regluverkið sem hér um ræðir sé þegar til staðar hjá til að mynda Íþróttasambandi Íslands. Ég get líka nefnt björgunarsveitirnar sem eru með heildarsamtök. Samþykkt þessa frumvarp myndi hafa mikil áhrif á starfsemi þessara fjöldasamtaka. Ég get nefnt Ungmennafélag Íslands og fleiri. Sem dæmi er það þannig hjá ÍSÍ að öll hreyfingin starfar eftir regluverki íþróttasambandsins og hefur fylgt því í áranna rás. Auk þess er hún bundin af Ólympíusáttmálanum og reglum alþjóðlegra sérsambanda. Sérsambönd og héraðssambönd ungmennafélaganna hafa auk þess gert athugasemdir við frumvarpið á fyrri stigum.

Virðulegi forseti. Ég held að það megi efnislega leysa úr þeim atriðum sem hafa verið sett fram í umfjöllun um málið. Ekki síður þarf að gefa sér tíma til samráðs um útfærslu og áhrif þess ef sætt næðist um að falla jafnvel utan gildissviðs. Það sama gildir um fjölmörg önnur stór almannaheillasamtök á borð við björgunarsveitirnar og Rauða krossinn sem að sama skapi hafa sett sér og sínum deildum reglur og formfestu. Þá hafa aðrir aðilar komið með verulegar athugasemdir, til að mynda SÍBS, sem þarf að skoða í þessu samhengi og ekki síst athugasemdir frá þeim félögum sem kalla eftir slíku regluverki.

Því leggur meiri hlutinn til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar þar sem það sæti skoðun í ljósi fram kominna athugasemda. Mikilvægt er að við þá skoðun fari fram víðtækt samráð við íþróttahreyfinguna og eftir atvikum önnur hagsmunasamtök sem frumvarpið snertir með það að markmiði að hlýtt verði á öll gjaldgeng sjónarmið áður en frumvarp þessa efnis verði lagt fram á næsta löggjafarþingi.

Hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson skrifar undir álit þetta með fyrirvara. Hann telur vonbrigði að enn hafi ekki tekist að klára málið. En undir álitið rita eftirtaldir hv. þingmenn: Óli Björn Kárason, Willum Þór Þórsson, Brynjar Níelsson, Bryndís Haraldsdóttir, Ólafur Þór Gunnarsson, með fyrirvara, og Smári McCarthy.