150. löggjafarþing — 128. fundur,  26. júní 2020.

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins.

843. mál
[19:18]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins, svokölluð mótframlagslán. Þetta tengist Kríu – sprota- og nýsköpunarsjóði, sem svo er kallaður.

Með frumvarpinu er lagt til að við lög um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins, nr. 61/1997, bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða þar sem kveðið verði á um mótframlagslán til sprota- og nýsköpunarfyrirtækja. Frumvarpið er þáttur í aðgerðum ríkisstjórnarinnar til stuðnings sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum.

Í umsögnum sem nefndinni bárust var m.a. bent á að tilefni gæti verið til að bregðast við óvissu varðandi skattalega meðferð breytanlegra skuldabréfa og hugsanlegum áhrifum mótframlagslána á möguleika fyrirtækja til að hljóta annars konar stuðning, svo sem skattfrádrátt á grundvelli laga um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki. Nefndin óskaði af þessu tilefni eftir afstöðu ráðuneytisins og barst minnisblað þar sem þessum sjónarmiðum var svarað. Telur nefndin ekki þörf á að bregðast frekar við ábendingunum.

Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að lánin verði veitt af Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins á grundvelli sérstaks samnings sem ráðherra gerir við sjóðinn þar sem m.a. verði kveðið á um skilyrði fyrir veitingu lánanna, um kjör þeirra og málsmeðferð ákvarðana um veitingu lánanna. Nefndin undirstrikar nauðsyn þess að í slíkum samningi verði skýrt kveðið á um úthlutunarreglur, lágmarks- og hámarksfjárhæðir mótframlagslána og vaxtakjör auk annarra atriða og að samningurinn verði unninn í samráði við sérfræðinga sjóðsins og aðila með víðtæka þekkingu á fjármögnun sprotafyrirtækja. Ákvæði samningsins taki mið af aðstæðum sprotafyrirtækja og verði með þeim hætti að úrræðið nýtist sem best til að aðstoða efnileg og lífvænleg sprotafyrirtæki í erfiðu ástandi.

Áætlað er að fjármagna þá aðgerð sem lögð er til með frumvarpinu með 500 millj. kr. af stofnframlagi Kríu – sprota- og nýsköpunarsjóðs á árinu 2020. Þessi fjárhæð verði veitt til Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins til að fjármagna mótframlagslán í samvinnu við fjárfesta. Í samningi sjóðsins við ráðherra verði kveðið á um kostnað sjóðsins af verkefninu sem greiðist af framlaginu.

Á þessari stundu liggur ekki fyrir hvert umfang eftirspurnar eftir mótframlagslánum verður en mikilvægt er að hrinda aðgerðinni í framkvæmd sem fyrst. Fram hefur komið að mat ráðuneytisins sé að umfangið kunni að liggja á bilinu 500–700 millj. kr. Í umsögn Viðskiptaráðs koma fram efasemdir um að 500 millj. kr. dugi til en samkvæmt mati þess kunna 30–40 fyrirtæki að nýta sér úrræðið. Nefndin telur óheppilegt ef grípa þarf til pro rata afgreiðslu umsókna en það kann að hafa neikvæð áhrif á forsendur fjárfesta fyrir því að nýta úrræðið. Nefndin bendir á að nauðsynlegt sé að meta úrræðið að nýju komi í ljós að eftirspurn frá lífvænlegum sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum verði meiri en gert er ráð fyrir og gefi tilefni til að veita aukið fé til verkefnisins.

Virðulegi forseti. Ég get upplýst það hér að þetta var þó nokkuð rætt í nefndinni. Ég held að ég geti alveg fullyrt að einhugur var um það að úrræðið myndi skila sér eins og til var ætlast. Það væri mjög miður ef eftirspurnin yrði þannig að ekki yrði hægt að mæta henni og það þyrfti í raun að skera niður ef fjöldinn yrði slíkur sem kallað er pro rata í álitinu sem ég las upp. Upphaflega var áætlað að miða við neðri mörk úrræðisins, 500 millj. kr. Málið var rætt þar sem fjárheimildin er á borði hv. fjárlaganefndar. Þar sem þessi sameiginlegi skilningur og vilji hv. efnahags- og viðskiptanefndar var til staðar hefur verið brugðist við því í hv. fjárlaganefnd og ákveðið að mæta þeim sjónarmiðum sem koma svo skýrt fram í nefndaráliti hv. efnahags- og viðskiptanefndar þannig að miðað verði við efri mörkin. Það er óskandi að þetta úrræði skili sér eins og það þarf að gera við þær aðstæður sem við búum við núna þar sem ekki veitir af að veita hér innspýtingu og stuðning við þau fyrirtæki sem sannarlega skapa nýja hluti, vonandi sem mest og til framtíðar.

Hér er einmitt kveðið á um sérstakan stuðning við sprota- og nýsköpunarfyrirtæki í formi mótframlagslána. Það er þekktur farvegur. Meðal annarra aðgerða sem stjórnvöld hafa gripið til, og sem geta með beinum eða óbeinum hætti nýst þeim fyrirtækjum sem þetta frumvarp lýtur að, má nefna stuðningslán og viðbótarlán, hlutabótaleiðina og fjárstuðning vegna launa á uppsagnarfresti. Auk þessa hefur Tækniþróunarsjóður verið efldur og fjárhæða- og hlutfallsmörk endurgreiðslna vegna fjárfestinga í rannsóknum og þróun hækkuð verulega, fjárfestingarheimild lífeyrissjóða í vísisjóðum verið aukin og Kría – sprota- og nýsköpunarsjóður verið settur á fót.

Nefndin áréttar það sem fram kemur í minnisblaði ráðuneytisins um að reglur um styrkhæfi og hlutfall styrkja taki m.a. mið af reglugerð Evrópusambandsins nr. 651/2014. Samkvæmt henni gildir skilyrði um neikvætt eigið fé aðeins um fyrirtæki sem teljast vera stór, þ.e. fyrirtæki sem hafa fleiri en 250 starfsmenn og ársveltu yfir 50 milljónum evra og/eða efnahagsreikning yfir 43 milljónum evra. Sprotafyrirtæki hér á landi eru jafnan lítil eða meðalstór fyrirtæki. Skilyrði um að eigið fé sé ekki neikvætt á því ekki við um þau fyrirtæki sem stendur til boða að sækja um mótframlagslán samkvæmt frumvarpinu.

Að öllu framangreindu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt.

Jón Steindór Valdimarsson og Oddný G. Harðardóttir skrifa undir álit þetta með fyrirvara. Þau telja að fjármögnun úrræðisins ætti að taka mið af efri mörkum mats ráðuneytisins á hugsanlegu umfangi verkefnisins. Mikilvægt sé að úrræðið verði þannig úr garði gert í samningum við Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins að það nýtist sem flestum lífvænlegum nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum sem lent hafa í fjármögnunarvanda vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

Virðulegi forseti. Ég held að fullyrða megi að ég hafi túlkað fyrr í ræðu minni þann fyrirvara á þeim vilja sem var í allri hv. efnahags- og viðskiptanefnd.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson skrifar undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fastanefnda Alþingis. Smári McCarthy var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir álitið rita eftirtaldir hv. þingmenn, Óli Björn Kárason, Bryndís Haraldsdóttir, Brynjar Níelsson, Jón Steindór Valdimarsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Oddný G. Harðardóttir, með fyrirvara, Jón Steindór Valdimarsson, einnig með fyrirvara, eins og ég las upp áðan, Ólafur Þór Gunnarsson og Willum Þór Þórsson.