150. löggjafarþing — 129. fundur,  29. júní 2020.

breyting á ýmsum lögum er varða eignarráð og nýtingu fasteigna .

715. mál
[13:29]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Við erum að ræða þetta gríðarlega mikilvæga jarðamál, sem við köllum oft svo í allsherjar- og menntamálanefnd. Ég verð að segja að ég hef ýmsar spurningar um það. Sérstaklega finnst mér þurfa að vinna betur það sem snýr að landbúnaði og hvernig bændur munu fara út úr þessu. Þó virðist líka vera nokkuð margt gott, t.d. breytingar á upplýsingaskyldu um eignarhald og ákvæði um landeignaskrá, það virðist vera gott og er sérstaklega nefnt í nefndaráliti meiri hlutans. En mér finnst liggja of mikið á og mér finnst þetta of stórt og mikilvægt mál sem má ekki flýta um of.

Ég vil segja þetta þrátt fyrir að augljóst sé að farið hefur verið í, hvað á maður að segja, djúpa vinnu í málinu. Þrátt fyrir það verð ég að taka fram að aðeins fimm fundir allsherjar- og menntamálanefndar hafa fjallað um málið, ásamt öðrum málum sem við erum með. Við fengum málið inn til okkar 28. apríl og síðan var nefndarálit tilbúið 23. júní. Umsagnir bárust, t.d. frá Bændasamtökum Íslands sem gagnrýna vald ráðherra í málaflokknum. Það þarf að skoða betur.

Bændasamtökin segja, með leyfi forseta:

„Að mati samtakanna er nauðsynlegt að fram fari sjálfstæð rannsókn á því hvaða áhrif takmarkandi reglur sem þessar geta haft á virði og veðhæfi jarða sem og afleiðingar fyrir þá sem eiga þær með tilliti til skuldbindinga þeirra.“

Mér sýnist í fljótu bragði að Samband íslenskra sveitarfélaga taki nokkuð undir þetta ákall um að mat á áhrifum liggi fyrir. Sambandið bendir einnig á fjölda neikvæðra umsagna og kallar eftir því að málið sé unnið í víðtækari sátt.

Við höfum heyrt það hér að boðuð sé frekari vinna í málaflokknum og það kemur eins fram í minnisblaði frá forsætisráðuneytinu. Ég vil segja að endingu að það hlýtur að undirstrika mikilvægi þess að flýta sér hægt.

Ég læt þetta duga að sinni.