150. löggjafarþing — 129. fundur,  29. júní 2020.

breyting á ýmsum lögum er varða eignarráð og nýtingu fasteigna .

715. mál
[14:21]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Haraldi Benediktssyni ágætisræðu. Hv. þingmaður endaði ræðu sína á því efnislega að segja að þetta væri ágætt fyrsta skref í þeirri vegferð sem fram undan er til að ná með fyllri og betri hætti utan um jarðamál í víðum skilningi. Þegar maður les umsagnir sem borist hafa og það hvernig frumvarpið liggur og nefndarálit, skilur það ekki eftir þá tilfinningu að mönnum hafi tekist sérstaklega vel til hvað það varðar að ná utan um málið.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort hann telji vel hafa tekist til hvað þetta fyrsta skref varðar og mig langar jafnframt að spyrja hv. þm. Harald Benediktsson hvort hann telji að skynsamlegt hefði verið að gefa málinu örlítið lengri tíma, fram á haustið t.d., vegna þess að ég held að það sé rétt, sem hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir kom inn á áðan, að í flestu samhengi er nú fleira sem sameinar okkur en umræðan hér í málinu gefur til kynna.

Þannig að spurningin er: Telur hv. þingmaður að það hefði mögulega verið skynsamlegt að gefa þinginu eilítið rýmri tíma til að vinna málið áfram, bæði með meiri dýpt og hugsanlega með því að samtvinna þetta frumvarp eða þessa vinnu inn í aðra þá þætti sem verið er að skoða í þessu umhverfi akkúrat núna?