150. löggjafarþing — 133. fundur,  28. ág. 2020.

markmið í baráttunni við Covid.

[13:37]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Hv. þingmaður kemur hér inn á þær aðgerðir sem eru á landamærum og ég viðurkenni að ég hef ekki alveg áttað mig á afstöðu hans til þeirra aðgerða þótt ég hafi hlustað mjög vandlega á hann hér í umræðum í gær. Þær eru fyrst og fremst rökstuddar með því að við sjáum nú annars vegar innanlandssmit sem við höfum ekki náð tökum á sem allar líkur benda til að hafi komið í gegnum landamærin og hins vegar þróun á landamærum, sem hv. þingmaður þekkir því það er ekki eins og stjórnvöld séu að leyna upplýsingum, að virkum smitum fjölgar á landamærum og það má beinlínis rekja til þess að faraldurinn hefur verið í vexti í heiminum. Það kallar á mjög harðar sóttvarnaráðstafanir hér innan lands og þá standa stjórnvöld frammi fyrir vali. Hvort viljum við reyna að slaka á ráðstöfunum hér innan lands og herða á landamærum eða halda áfram hinum hörðu sóttvarnaráðstöfunum innan lands? Það er ekki einfalt val eins og hv. þingmaður áttar sig á. En ég held að það sé mikilvægt og (Forseti hringir.) hefði jafnvel átt von á því að við ræddum þá forgangsröðun stjórnmálaflokkanna hér á Alþingi þegar horft er til þessara flóknu valkosta, sem ég hefði kannski átt von á (Forseti hringir.) að væru (Gripið fram í.)ræddir meira í gær.