150. löggjafarþing — 134. fundur,  2. sept. 2020.

Störf þingsins.

[15:33]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Síðastliðið hálft ár höfum við séð magnaða samvinnu á heimsvísu og innan lands. Það er hlutverk okkar stjórnmálamanna að hvetja til samstarfs við úrlausn aðkallandi verkefna því með öflugu samstarfi getum við haldið samfélaginu í eins miklu jafnvægi og mögulegt er í gegnum Covid. Margar ákvarðanir um sóttvarnaaðgerðir og viðspyrnu við kófinu orka tvímælis á hverjum tíma en okkur hefur auðnast að byggja þær ákvarðanir sem við höfum tekið á grunni bestu fáanlegu upplýsinga hverju sinni. Það hefur svo ítrekað sýnt sig að þær aðgerðir skila árangri. Eins og staðan er núna fer innanlandssmitum fækkandi og ekki hefur dregið eins mikið úr landsframleiðslu og spáð var í vor.

Verkefni stjórnvalda er áfram mikilvægt, að hlúa að einstaklingum, fjölskyldum og samfélaginu en einnig verður að tryggja rekstraraðilum viðunandi starfsumhverfi til að afla samfélaginu gjaldeyristekna. Við þurfum virka atvinnuþróun og nýsköpun. Gott er að sjá fréttir af árangri einstakra fyrirtækja við að sækja sér erlent fjármagn til nýsköpunar. Ný vísinda- og tæknistefna sem ríkisstjórnin kynnti í gær og yfirlýsing um 50% aukningu fjárveitinga til nýsköpunar næsta ár er mikið fagnaðarefni og grunnur framtíðartekna. Á hinn bóginn er mjög vont að sjá fréttir um að niðursveiflan í hagkerfinu magnist vegna þess að fyrirtæki hafi ekki lengur aðgang að lánsfjármagni. Útlánsvextir fjármálastofnana til fyrirtækja hafa ekki lækkað í takt við vexti Seðlabankans og jafnvel virðist skorta vilja til lánveitinga. Ég álít að stjórnvöld verði að bregðast við. Til er fólk um land allt sem er tilbúið í atvinnuþróun og stjórnvöld verða að sjá til þess að sá möguleiki sé til staðar.