150. löggjafarþing — 134. fundur,  2. sept. 2020.

húsnæðismál .

926. mál
[16:47]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta velfn. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir andsvarið. Jú, ég fylgdist mjög vel með. Ég fylgdist mjög vel með allri vinnu sem átti sér stað í nefndinni. Ég fylgdist líka mjög vel með og las umsagnir þeirra sem sendu okkur álit sitt, þar á meðal Samband íslenskra sveitarfélaga sem er líklega sá aðili sem þekkir best til stöðu húsnæðis í sveitarfélögum um allt land, bæði á vaxtarsvæðum og á köldum svæðum. Og það var einmitt Samband íslenskra sveitarfélaga sem mælti gegn þeirri tillögu vegna þess að framboð og eftirspurn verða að haldast í hendur til að húsnæðismarkaðurinn verði ekki fyrir tjóni af úrræðum eins og þessu. Það var Samband íslenskra sveitarfélaga sem, bæði í umsögn og þegar sambandið mætti fyrir nefndina, sagði að þörfin á húsnæði víða um landið væri ekki svo mikil að það ætti að eyrnamerkja því 20%. Við erum að hlusta á þá aðila sem þekkja allt landið, ekki bara stöku byggingarverktaka sem einhver hefur ráðfært sig við á ferðalögum sínum. Við erum að tala um sambandið sem hefur kortlagt þetta allt saman.

Hv. þingmaður talar um að varasjóðurinn eigi að mæta útlánatapi ríkissjóðs. Það er hvergi á það minnst. Ég skil ekki alveg hvaðan þetta kemur. Við erum að tala um 4 milljarða sem eiga að fara í þetta og svo erum við að tala um 1 milljarð í viðbót til að mæta (Forseti hringir.) einhverri aukinni breytingu. Við erum ekki að tala um hvernig heimtur verða á þessum lánum. Við erum ekkert (Forseti hringir.) að fá þetta borgað til baka strax sama árið. Á hverju ári á að setja 1 milljarð að auki í þetta.