150. löggjafarþing — 134. fundur,  2. sept. 2020.

húsnæðismál .

926. mál
[18:00]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta velfn. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir yfirferðina á skilningi hans og túlkun á þessu máli og þeim breytingum sem meiri hlutinn hefur gert. Mér fannst áhugavert að heyra hv. þingmann segja að grundvallarhugsunin í því að stytta lánstímann úr 25 árum í 10 ár væri sú að lántaki hefði frelsi til að velja lán, að lántaki hefði frelsi til að velja hvaða úrræði hann ætlaði að nota. Ég verð að segja hv. þingmanni að ég er pínulítið hrygg í hjartanu yfir þeirri áru forréttinda sem skín úr þessum orðum, forréttinda þeirra sem hafa ekki kynnst fátækt og hafa ekki kynnst óöryggi í húsnæðismálum. Þeir sem búa við fátækt og óöryggi í húsnæðismálum hafa ekki frelsi til að velja um lán. Það er verið að búa til þetta úrræði vegna þess að þeir sem búa við fátækt á Íslandi og þeir sem hafa lægstu tekjurnar hafa ekkert val um að taka bara aukalán hér eða fá lán hjá pabba og mömmu eða hvað það nú er. Þetta er félagslegt úrræði sem við erum að skapa hérna. Við þurfum að hafa það í huga þegar við tökum ákvörðun um að stytta lánstíma úr 25 í 10 ár.

Það er ekkert mál að taka upplýsta ákvörðun um að halda áfram í úrræðinu. Maður getur hvenær sem er gengið út úr úrræðinu. Það er hægt að ganga út úr því eftir fimm mánuði, eftir fimm ár eða eftir 10 ár, ef maður hefur það val. (Forseti hringir.) En þetta er félagslegt úrræði sem við erum að búa til og við verðum að umgangast það þannig en ekki horfa á það með augum og gleraugum þeirra sem eru á háum launum og (Forseti hringir.) geta valið um hvar þeir taka lán.