150. löggjafarþing — 134. fundur,  2. sept. 2020.

húsnæðismál .

926. mál
[18:26]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson fyrir ágæta ræðu og áhugaverða um margt. Ég myndi vilja ræða ýmis atriði úr ræðunni við þingmanninn en ætla að reyna að einbeita mér að fáeinum atriðum. En fyrst gildismatið á milli eignamyndunar og húsnæðisöryggis. Ég ímynda mér að þeir sem sækja í úrræðið muni a.m.k. að einhverju leyti framan af horfa meira til húsnæðisöryggisins sem úrræðið skapar fyrir þá og eignamyndunarvinkillinn, ef við getum sagt sem svo, komi kannski inn í hugsunina síðar, þ.e. þegar fólk fer raunverulega að sjá að einhver eignamyndun er að verða hjá því.

Mig langar að heyra aðeins vangaveltur þingmannsins, hvort hún er sammála því að þarna gæti í raun tvennt togast á. Ég tel að húsnæðisöryggi sé kannski það sem stjórnvöld eigi að tryggja en eignamyndun sé ekki endilega verkefni þeirra heldur sé félagslegi þátturinn í úrræðinu, eins og þingmaðurinn kom réttilega inn á, miklu frekar það mikilvæga.

Í framhaldi af því vil ég koma aðeins inn á þetta með nýtt eða notað húsnæði. Þar togast væntanlega líka á þessi tvö sjónarmið, þ.e. nýtt húsnæði krefst að jafnaði minna viðhalds. Þar með getur eigandinn einbeitt sér meira að eignamyndun, getum við ímyndað okkur, fremur en að halda húsnæðinu við. Þess vegna kann það sjónarmið að vera uppi að það sé jafn mikilvægt fyrir þann sem býr í húsnæðinu (Forseti hringir.) að það sé nýtt og viðhaldslaust og hann geti þá einbeitt sér að þeim þáttum sem þingmaðurinn talaði um.