150. löggjafarþing — 134. fundur,  2. sept. 2020.

húsnæðismál.

926. mál
[20:32]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Forseti. Þau lán sem við fjöllum um eru mjög mikilvæg og hluti af lífskjarasamningnum, eins og margoft hefur komið fram í dag. Við í Miðflokknum munum styðja álit meiri hluta, en þó með fyrirvara og ég vil aðeins gera grein fyrir þeim fyrirvara í þessari ræðu. Margt er óljóst, t.d. eru reglugerðarheimildir ráðherra víðtækar í þessu máli. Fram kom í umfjöllun nefndarinnar að erfitt gæti reynst að ætla að binda öll þau ákvæði sem þurfa að fylgja í lagatextann sjálfan og þess vegna væri ráðherra falið þetta leyfi til reglugerða. Hugtakanotkun er einnig mjög óljós. Að tala um hagkvæmt húsnæði er eitt af því sem hefði mátt alveg skýra í lagatextanum í stað þess að setja reglugerðarákvæði. Eins eru settar ýmsar kvaðir á lántakendur sem geta orðið til þess að fólk mun ekki sækja um þessi lán.

Við fengum senda tillögu að reglugerð ráðherra. Þar er ansi langur kafli sem fjallar um hvaða skilyrði lántakendur þurfa að uppfylla, en það er minna um skilyrði þeirra sem veita lánin, alla vega enn sem komið er. Það getur vel verið að þar verði bætt úr, en listinn yfir skilyrði sem lántakendur þurfa að uppfylla er töluvert langur og getur virkað þannig að fólk sæki ekki um. Töluvert skortir á upplýsingar um þörfina fyrir húsnæði af þessu tagi eða öllu heldur það húsnæði sem kæmi til móts við þann tekjuhóp sem hér um ræðir. Ég er nokkuð viss um að þörfin er meiri en hér er kynnt til sögunnar. Ég óskaði eftir upplýsingum um það til að geta metið nokkurn veginn þann byrjunarpunkt sem við stæðum á gagnvart lagasetningunni og við fengum ágæta skýrslu í velferðarnefnd frá Íbúðalánasjóði, sem þá hét svo, um íbúðaþörf árin 2019–2040, sem við höfum reyndar fengið kynningu á áður, en það var ágætt fyrir okkur að rifja hana upp núna, sérstaklega í ljósi þeirrar óvissu sem við stöndum frammi fyrir. Ég er viss um að væri sú skýrsla skrifuð í dag væri kaflinn um óvissuþætti mun lengri en hann er í núverandi skýrslu, þannig að kannski er ráð að uppfæra hann.

Í skýrslunni eru vissar vísbendingar um að ungt fólk búi lengur í foreldrahúsum en það kýs þar sem skortur hefur verið á íbúðum sem henta þessum aldurshópi. Ég tek það fram að skýrslan er unnin sérstaklega með annars vegar höfuðborgarsvæðið og hins vegar landsbyggðina í huga, og svo er velt upp alls konar áhrifum á hina ýmsu aldurshópa, allt frá ungum og upp í eldri aldurshópa, þannig að ekki er verið að horfa til þeirra tekna sem fólk aflar sér á hverju æviskeiði.

Hér verður líka að nefna að það er vel hægt að segja að lánin séu til tíu ára en ekki 25 ára, alla vega skil ég það þannig, þegar lántakendur eru jafnvel metnir inn í úrræði á ný, sem talað er um sem virka ráðgjöf. Það er eitt af þeim hugtökum sem mér finnst óskýr. Það er óskýrt hvað átt er við þegar talað er um virka ráðgjöf. Ég velti því fyrir mér hvað óvirk ráðgjöf er í því sambandi.

Í frumvarpinu er skilyrt að 20% hlutdeildarlána fari til landsbyggðarinnar. Þá er spurning hvað flokkast sem landsbyggð. Ýmsir hafa komið inn á það í dag hvort Akureyri sé landsbyggð. Og ef ég lít aftur í mitt kjördæmi, er þá Raufarhöfn landsbyggð eða Egilsstaðir eða Seyðisfjörður? Það er nokkuð óskýrt og ég hefði jafnvel kosið að við settum skurðpunktinn þannig að það héti annaðhvort höfuðborgarsvæði eða allt það sem er utan við höfuðborgarsvæðið.

Ýmsir hafa gagnrýnt að ekki sé heppilegt að halda inni tekjuviðmiðunum sem eru í frumvarpinu og lesa má eftirfarandi í umsögn VR, með leyfi forseta:

„Sé litið til félagsmanna VR á aldrinum 25–30 ára þýðir ákvæðið um tekjuviðmið að yfir 70% þeirra geta ekki nýtt sér þetta úrræði til að eignast eigið húsnæði. Almenn skilyrði lánanna, sem eru tölusett í sex liðum, samanber 29. gr. b, munu leiða til þess að lánin verða aðeins veitt þeim sem þurfa á þeim að halda, á meðan lögbundin tekjuviðmið tekna útiloka marga sem þó þurfa á úrræðinu að halda, einkum þegar tekið er tillit til örrar þróunar verðs á fasteignamarkaði, eins og verið hefur, jafnvel þegar verð á öðrum mörkuðum hefur staðið í stað, eða [það hefur] lækkað. Þá kalla lögfest tekjuviðmið á aukna stjórnsýslu, heimild ráðherra til að veita undanþágu frá viðmiðum, árlega endurskoðun og fleira sem leiðir til óskilvirkni úrræðisins.“

Ég ætla að leyfa mér að taka undir þetta. Og þar sem við fengum þessa umsögn, sem mér fannst ágæt eða alla vega þess virði að skoða betur, þá óskaði ég eftir því í velferðarnefnd að við fengjum svokallaðar sviðsmyndir af áhrifum af hækkun tekjumarka í skilyrðum hlutdeildarlána. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun sendi nefndinni því minnisblað. Í því kemur fram, með leyfi forseta:

„Hagdeild HMS, þá ÍLS, framkvæmdi mat á mögulegri eftirspurn hlutdeildarlána og framboð hagkvæmra íbúða miðað við ákveðnar, líklegar forsendur haustið 2019.“

Í þessu sambandi er mjög mikilvægt að hafa í huga þá dagsetningu eða tímabil sem þessi skýrsla er unnin út frá, þ.e. haustið 2019.

„Niðurstaða matsins varð sú að miðað við þau tekjumörk sem lögð voru til grundvallar yrði eftirspurn hlutdeildarlána að öllum líkindum töluvert meiri en mögulegt framboð á hagkvæmu húsnæði, sem fellur undir skilyrði um veitingu slíkra lána.“

Og áfram er haldið:

„Ef tekjumörk í skilyrðum um hlutdeildarlán yrðu hækkuð myndi það leiða til þess að fleiri einstaklingar og heimili myndu uppfylla skilyrðin um veitingu slíkra lána og því yrði eftirspurn meiri en ella. Framboð á hagkvæmu húsnæði breytist ekki til skamms tíma vegna þess tíma sem tekur að byggja húsnæði, eða að meðaltali um 18–24 mánuði. Metið framboð var töluvert minna heldur en líkleg eftirspurn, magn hlutdeildarlána. Samkvæmt matinu er áætlað að framboð hagkvæmra íbúða gæti legið á bilinu 340–710 íbúðir á ári. Mat á líklegri eftirspurn leiddi í ljós að hún gæti legið á bilinu 3.800–8.600 einstaklingar og fjölskyldur. Af þeim sökum er ljóst að framboðið er takmarkandi þáttur í umfangi lánanna. Því er ekki viðbúið að umfang hlutdeildarlána aukist til skamms eða meðallangs tíma, fari svo að tekjumörk yrðu hækkuð. Við hækkun tekjumarka myndu fleiri einstaklingar með meiri greiðslugetu falla undir skilyrðin. Hins vegar er óvissa hvort tekjuhærri einstaklingar myndu kjósa að taka hlutdeildarlán í sama mæli og þeir tekjulægri, en það fer eftir aðstæðum hvers og eins, svo sem sparnaðargetu, núverandi greiðslubyrði og væntingum á markaði. Hækkun tekjumarka myndi leiða til þess að fleiri einstaklingar og fjölskyldur myndu bítast um sömu eignirnar þar sem framboð er hæg, breytanleg stærð og afleiðing af því yrði líklega sú að verð myndi hækka upp hámarksverð hvers íbúðarflokks fyrir sig, sem nánar er kveðið á um í reglugerð sem ráðherra setur.

Bankarnir yrðu einnig líklegri til að velja tekjuhærri einstaklinga umfram þá tekjulægri við veitingu grunnlána út frá eðlilegu áhættusjónarmiði. Þetta myndi leiða til þess að úrræði næði síður til einstaklinga í neðri hluta tekjudreifingarinnar. Hins vegar gæti hækkun tekjumarka aukið hvata byggingaraðila til að byggja hagkvæmt húsnæði vegna aukinnar eftirspurnar.“

Ég ætla að endurtaka þetta:

„Hins vegar gæti hækkun tekjumarka aukið hvata byggingaraðila til að byggja hagkvæmt húsnæði vegna aukinnar eftirspurnar. Þau áhrif [séu] hins vegar lengur að koma fram.“

Þannig að við samþykkt þessa frumvarps verður enn eftir hópur sem missti allt sitt í bankahruninu og fær hvergi fyrirgreiðslu, stenst ekki greiðslumat o.s.frv. Þess vegna er það athugandi, og nú beini ég orðum mínum sérstaklega til húsnæðismálaráðherra, að væntanlega þarf ekki nema reglugerðarbreytingu, eða með öðrum orðum, að lagfæra reglugerð um lánshæfis- og greiðslumat. Ég bendi á þetta hér í lokin því að ef það er raunverulegur vilji til að koma til móts við þennan hóp fólks, sem er mjög fjölmennur og hefur beðið mjög lengi, þá er vandalítið fyrir ráðherra að gera það með eins og einu pennastriki. Að því sögðu vil ég segja að Miðflokkurinn styður málið með þeim fyrirvörum sem ég hef farið hér yfir.