150. löggjafarþing — 134. fundur,  2. sept. 2020.

húsnæðismál .

926. mál
[20:45]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Mig langar að taka til máls í lok þessarar umræðu um þetta mál sem er mjög mikilvægt, um hlutdeildarlán sem nú standa tekjulágu fólki til boða þegar frumvarpið verður samþykkt. Það er löngu kominn tími til að mæta tekjulágu fólki sem vill eignast sitt eigið húsnæði og byggja upp eign í því til framtíðar en hefur ekki haft möguleika á því að leggja fram þá fjármuni sem hefur þurft til til að geta fjármagnað eigin húsnæði. Eins og við þekkjum getur jafnvel verið dýrara að greiða leigu á opnum leigumarkaði en að borga niður lán og vera þá að eignast í húsnæðinu. Það á að vera val hjá fólki, hvort sem það er tekjulágt eða efnað, hvort það vilji vera á leigumarkaði eða eiga sitt eigið húsnæði.

Hér er farið fram með mjög gott og þarft mál sem verið er að hrinda í framkvæmd á þeim tímum sem við lifum, sem eru vissulega erfiðir og þá sérstaklega fyrir tekjulágt fólk. Það getur keypt sína fyrstu íbúð með þeim stuðningi sem þarna býðst, þ.e. að ríkið fjármagnar hluta af íbúðarhúsnæðinu, og hefur möguleika á að vera þar í öryggi.

Ég talaði hér, þegar hæstv. ráðherra flutti þetta mál, og hafði áhyggjur af því að þetta úrræði næði ekki út á landsbyggðina. Við sem búum á landsbyggðinni og þekkjum til vitum að mjög mikill sogkraftur er af landsbyggðinni hingað á höfuðborgarsvæðið og vitum að þörf er fyrir hagkvæmt húsnæði á allri landsbyggðinni sem standi tekjulágu fólki til boða. Ég talaði hér um það að ef ekki yrðu gerðar breytingar í þá átt að landsbyggðinni yrði tryggður hlutur í þessu mjög svo góða úrræði hefði ég áhyggjur af því að enn fleira fólk myndi sogast hingað þar sem þetta úrræði væri í boði fyrst og fremst. Það er auðvitað á mörgum stöðum um landið sem ekki er verið að byggja hagkvæmt húsnæði. Og hvort kemur á undan, eggið eða hænan? Það er oft spurt að því. Ég tel að það muni styrkja mjög landsbyggðina að í boði séu líka íbúðir og húsnæði fyrir tekjulága þannig að fólk geti haldið áfram að búa á þeim stað sem það vill búa á.

Ég er því mjög ánægð yfir þeim breytingum sem urðu á frumvarpinu í meðförum velferðarnefndar og tek þetta sérstaklega út fyrir sviga. Mér finnst mjög sérstakt þegar þingmenn Samfylkingarinnar og formaður velferðarnefndar hafa miklar áhyggjur af að þetta hafi svo mikil áhrif og raski markaði úti á landi. Ég hefði haldið að allir ættu að gleðjast yfir því að hægt væri að bjóða láglaunafólki úti um land allt, hvort sem það býr á Raufarhöfn eða Tálknafirði, að vera þátttakendur í því að komast í hagkvæmt húsnæði og eignast sína fyrstu íbúð á þeim kjörum sem þarna bjóðast. Ég tel að eins og þetta er útfært sé tryggt að það séu að lágmarki 20% á ársgrundvelli sem bjóðist til uppbyggingar úti á landi. Ef það gengur ekki út renni það inn á þau svæði þar sem meiri eftirspurn er eftir úrræðinu. Það séu að lágmarki 20% sem standi til boða og getur verið meira eftir því hvernig eftirspurn er hvar sem er á landinu. Víða úti um land er verið að taka í gegn eldri fjölbýlishús og annað húsnæði og það er þá búið að breyta því að húsnæðið þurfi ekki að vera nýbyggingar heldur geti uppgert húsnæði uppfyllt kröfur Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.

Ég tel að það hljóti allir að vera mjög ánægðir með hvernig þetta mál hefur þróast og þetta sé eitthvað sem hefur verið beðið eftir mjög lengi. Málið er hluti af lífskjarasamningi eins og við þekkjum og vonandi tekur þingheimur allur undir að það er löngu tímabært og við eigum öll að leyfa okkur að gleðjast yfir því að þetta frumvarp sé til meðferðar hér í þinginu og komi til afgreiðslu næstu daga.