150. löggjafarþing — 138. fundur,  3. sept. 2020.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

998. mál
[21:45]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Já, þetta er sjónarmið en það byggir að einhverju leyti á þeirri von að áhættan verði jafn mikil en ekki meiri. Við erum að tala um að áhættan megi vera minni en við viljum helst ekki meiri áhættu. Hv. þingmaður talar um jafna áhættu. Hverjar eru líkurnar á jafnri áhættu þegar við erum að tala um svona viðskipti? Eru þær 2% eða eru þær 5%? Ég veit það ekki. Ég held að það sé eiginlega vonlaust að geta sér til um það.

Staðreyndin er að ef stunduð eru afleiðuviðskipti í dag, sem vitað er að minnki áhættu, eru þau leyfileg. Einu tilfellin þar sem það mætti ekki er ef verið er að auka áhættu. Þetta er það sem núverandi lög fela í sér nema auðvitað í því ótrúlega ólíklega tilfelli þegar áhættan stendur í stað.

Vissulega er engin skylda nýta sér áskriftarréttindi. Þá mætti segja að búið sé að kaupa hlut í fyrirtæki. Það að hafa áskriftarréttindin gefur möguleika á áframhaldandi fjármögnun, er það ekki? Það myndi þá þýða að áskriftarréttindin, per se, minnkuðu áhættu lífeyrissjóðsins þó svo að hann gæti ákveðið að nota þau ekki. Ef það er tilfellið þurfum við ekki á þessu frumvarpi að halda. Ef það er ekki tilfellið er verið að auka áhættuna. Þetta eru einu valkostirnir, herra forseti.