151. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2020.

kynjahalli í aðgerðum ríkisstjórnarinnar.

[10:48]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Hvað þennan síðasta punkt varðar tel ég mikilvægt að við skoðum það sérstaklega, þ.e. að brugðist verði við gagnvart þeim sem féllu á milli skips og bryggju þegar kemur að tekjutengda tímabili atvinnuleysisbóta. En það að hv. þingmaður komi hér upp, svona í alvöru talað, og tali um að ríkisstjórnin sé meðvitað að auka kynjamisrétti með aðgerðum sínum er auðvitað eins og hver annar brandari, herra forseti, þegar við horfum á það sem þessi ríkisstjórn hefur verið að gera, þegar við erum að efla almannaþjónustu, efla menntun, grípa til raunverulegra aðgerða til að bæta heilbrigðiskerfið til þess að standa með þeim stéttum, eins og ég lýsti áðan, sem hafa haldið uppi þessu kerfi. Þegar við erum að breyta því hvernig við hugsum um fjárfestingar, erum einmitt að horfa á græna fjárfestingu, horfa á rannsóknir, horfa á nýsköpun. Jú, það kemur fram í þessu mati að karlar séu líklegri til að fá úr samkeppnissjóðum en konur. Það er eitthvað sem þarf að taka til sérstakrar skoðunar í kerfinu. En það eru örugglega fáar ríkisstjórnir sem hafa lagt meiri áherslu á kynjajafnréttismál á undanförnum árum, sem horfa á jafnréttismálin sem eina heild. Við erum að fara að ræða endurskoðun jafnréttislaga hér. Mér finnst því eiginlega hálfhlægilegt að taka út fyrir sviga löngu tímabæra eflingu og aukningu í samgönguframkvæmdum og byggingarframkvæmdum og tala um það sem sérstakra aðför að kynjajafnrétti. Mér finnst þetta í raun og veru ekki halda nokkru einasta vatni.