151. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[12:25]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil benda á eitt í þessu. Því hefur aðeins brugðið við í opinberri umræðu að menn horfa á opinberu tölurnar og segja að það vanti eitthvað upp á það sem við sögðumst ætla að gera. Það hefur m.a. með það að gera hvernig menn flokka fjárfestingu. Við höfum verið mjög opin með það að við lítum á það sem fjárfestingu í framtíðinni að setja peninga inn í samkeppnissjóðina, í nýsköpunarverkefni og annað þess háttar, þó að það myndi ekki koma í dálkinn fjárfesting hjá Hagstofunni. Þar er meira horft á fastafjármuni og slíka hluti. Þegar ég segi að það verði verkefni að koma 30 milljörðum út í slíkar verklegar framkvæmdir þá byggi ég það á þeim upplýsingum sem koma innan úr stjórnkerfinu. Ég vek athygli á því að við erum t.d. að fullfjármagna samgönguáætlunina eins og hún var afgreidd á þinginu, jafnvel þótt það vantaði gríðarlega mikið upp á þegar þingið sleppti henni frá sér. Það var eiginlega hliðarkafli sem var ófjármagnaður. (Forseti hringir.) Að öðru leyti er ég þeirrar skoðunar að við séum að gera mjög vel í þeim málaflokki sem hv. þingmaður nefnir þó að það megi alveg fara yfir það í nefnd.