151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[15:12]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég fagna þeirri áherslu sem hv. þingmaður leggur á að við hugum að arðsemi fjárfestinga. Við þekkjum það kannski helst í samgöngumannvirkjum þar sem horft er til styttingar á umferðartíma og umferðaröryggis. Við erum með lista sem sýnir okkur hvar slysin verða helst og hversu mikill ábati getur verið af því að laga umferðarmannvirki þar sem við getum stytt ferðatíma, dregið úr slysum, aukið öryggi og þar með lífsgæði. Umhverfismál og loftgæði koma síðan inn í myndina líka. Þetta er því gríðarlega mikilvægt.

Ég ætla að láta ábendingar hv. þingmanns verða mér tilefni til að rifja aftur upp það sem ég kom inn á í upphafi, sem er efnahagsreikningur ríkisins og mikilvægi þess að við horfum á það hvort við séum að hámarka efnahagsreikninginn, eignir ríkisins, á sama tíma og við arðsemismetum nýjar fjárfestingar. Við höfum beitt okkur fyrir þeirri aðferðafræði að fara út í markaðsleigu fyrir ríkisaðila þannig að við sjáum bara svart á hvítu hvað það kostar okkur að geyma ríkisaðila í tilteknu húsnæði. Hér miðsvæðis ættu menn t.d. að greiða markaðsleigu fyrir húsnæði. Það kallar fram kostnað ríkisins við það að halda á eigninni. Valkosturinn er þá alltaf sá að losa eignina, selja hana á háu verði, flytja starfsemina á ódýrari stað og hámarka þannig nýtingu fjármuna sem eru bundnir á efnahagsreikningi ríkisins ef menn sjá að heildarhagsmunirnir liggja þannig.

Ég held að hægt sé að fara mjög vandlega yfir allan efnahagsreikning ríkisins og spyrja sig spurninga um það hvort við séum að hámarka virði eignanna. Í þessu sambandi reikar hugurinn auðvitað víða og m.a. til þess að ríkið er mjög stór eigandi að bönkum, svo dæmi sé tekið. Það má spyrja sig hvort það fé sé vel geymt.