151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[16:02]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni jafnframt fyrir að beina sjónum aðeins að þessu vegna þess að í stuðningnum við sveitarfélögin í tengslum við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar var einmitt horft á að tryggja að sveitarfélögin hefðu sömu fjárhagslegu stöðu til að takast á við málefni fatlaðs fólks. Þá voru einfaldlega settir í það fjármunir til viðbótar eins og það var í fyrra. Á sama hátt var metið að fjárhagsaðstoð, sem er oft einmitt fyrir viðkvæmustu hópa, myndi vaxa um 30%. Þess vegna voru settar rúmar 700 milljónir í nákvæmlega það verkefni.

En ég vil nefna þriðja þáttinn sem ekki er í þessari yfirlýsingu. Hæstv. félagsmálaráðherra og sá sem hér stendur settu á laggirnar teymi sem fór strax að fylgjast með hvernig gengi hjá sveitarfélögunum að sinna þjónustunni við viðkvæma hópa. Það voru haldnir reglulegir fundir með formanni Sambands íslenskra sveitarfélaga, okkur ráðherrunum og lykilembættismönnum. En aðalatriðið var að samskipti milli sveitarfélaganna og ríkisins voru bein á þessum tíma. Við settum fjármagn í þetta í vor á þessum nótum. Við breyttum síðan hópnum yfir í meiri framkvæmdahóp og hann er akkúrat núna að störfum þar sem hann er til að mynda búinn að greina stöðu innflytjenda í sveitarfélögunum. Hana þarf að skoða sérstaklega og við erum að setja fjármuni, sem við tókum til hliðar úr jöfnunarsjóði í vor, inn í þróunarsjóð innflytjendamála til að styðja við ákveðna þætti. Ég held því að við séum að reyna að vera með puttann á púlsinum í þessu, einmitt að læra af reynslu síðustu kreppu. Við heyrum það frá öðrum löndum. Þau spyrja hvernig þetta virkar hjá okkur. Þau lentu mörg hver í vandræðum í mars og apríl á þessu ári.