151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[16:58]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég er bara ekki alveg á sama stað og sumir þingmenn hér, þ.e. að ef fjárframlög séu ekki aukin stórlega þá sé enginn metnaður til staðar. Það eru svakalega slæmar fréttir. Ég veit að hv. þingmaður er úr Suðurkjördæmi og ég veit að mikill metnaður hefur verið í landbúnaðarmálum þar en á undanförnum áratugum hafa framlög ríkisins lækkað gríðarlega til landbúnaðarmála. Þýðir það að menn séu að missa allan metnað varðandi landbúnaðarmál í landinu? (Gripið fram í.) Hv. þingmaður vill ekki að ég noti þetta dæmi, allt í góðu. Það er hægt að taka mörg önnur. Þessi hugsun gengur ekki upp.

Í ofanálag vil ég benda hv. þingmönnum á að við erum að fara í gegnum eina dýpstu kreppu sem verið hefur og ef menn ætla að mæta hér og segja að ekki sé hægt að gera neitt nema með því að setja meiri peninga í viðkomandi málaflokk þá skulum við bara gefast upp strax, sem við ætlum ekki að gera, það er mjög langur vegur frá. Við setjum gríðarlegan metnað í öll þau mál sem við leggjum áherslu á.

Það hefur kannski farið fram hjá hv. þingmanni, það er nú gaman að ræða það sérstaklega, að við fórum í sérstaka stefnumótun eftir að Covid byrjaði. Við reyndum að læra af því hvað gekk vel og hvað við gætum nýtt af því sem gerðist. Eitt af því sem við getum nýtt eru t.d. fleiri fjarfundir, það kallar á minni fjármuni en við munum geta nýtt þá betur. Það sem við leggjum sérstaka áherslu á, og þess vegna erum við að koma á viðskiptavakt, af því að hv. þingmaður vísaði í borgaraþjónustuna, það stóra verkefni þegar við vorum að hjálpa fólki til að koma heim, og það er að fyrirmynd þess. Þá erum við að samnýta ráðuneyti, sendiráð, með svipuðum hætti og við gerðum með borgaraþjónustuna, og svo Íslandsstofu, sem ríkisstjórnin kom sem betur fer hér í gegn eftir harða mótstöðu stjórnarandstöðunnar.

Utanríkisþjónustan mun ekki selja neitt, ekki einn fisk. En við getum hins vegar opnað dyr og með því að vinna með atvinnulífinu getum við hjálpað til við að auka útflutningsverðmæti. Það er eitt af stóru forgangsmálunum núna. Ég get nýtt alla fjármuni sem koma inn aukalega, það vantar ekkert upp á það (Forseti hringir.) en aðalatriðið er að nýta þá fjármuni sem við höfum eins vel og mögulegt er og setja markið hátt og ná markmiðunum.