151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[17:21]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Aftur spyr hv. þingmaður hvort ég sé sammála Miðflokknum. Þá spurningu fæ ég nú eiginlega aldrei þannig að hv. þingmaður verður að fyrirgefa þó að ég eigi svolítið erfitt með að fóta mig í því efni. Þetta er mjög opin spurning. Ég held að ég hafi tekist nokkuð fast á við Miðflokkinn um EES-samninginn. Venjulega þegar menn gera það eru þeir ekki sammála og ég veit ekki til þess að Miðflokkurinn hafi breytt afstöðu sinni. Og ef þeir eru ekki orðnir sammála mér þá er ég ekki sammála þeim. Ég vona að það svari spurningu hv. þingmanns.

Varðandi Breta hefur vandamál varðandi sjávarútveg og slíka þætti ekki komið upp enn þá í það minnsta. Mér þætti mjög líklegt að ég hefði fengi einhverjar slíkar meldingar ef þau hefðu komið upp. Það sem ég hef mest rætt um við breska ráðherra þegar kemur að sjávarútvegi varðar samstarf milli Íslands og Bretlands. Þeir geta mikið lært af okkur á því sviði. Þeir voru búnir að vera í áratugi í Evrópusambandinu og veiddu aðeins 25% af fiski í sinni lögsögu. Þeir eru núna í fyrsta skipti í langan tíma að fá aftur yfirráð yfir lögsögu sinni. (Gripið fram í.) Hugsið ykkur ef við Íslendingar værum í þessari stöðu, værum í Evrópusambandinu og gætum bara veitt 25% af okkar eigin fiski. Það er bara raunveruleikinn.

Við höfum verið að ræða samstarf á ýmsum sviðum í sjávarútvegsmálum og ég fagna þó ekki fyrr en markið er komið. Ég fagna ekki fyrr en við erum búin að skrifa undir. En hins vegar hef ég reynt að ræða við ESB, m.a. um framkvæmd á tollasamningnum og öðru slíku. Það hefur verið mjög erfitt, virðulegi forseti, og ég hef ekki náð neinum árangri hvað það varðar fram til þessa, ef það svarar fyrirspurn hv. þingmanns.