151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[18:00]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Í þessari stuttu ræðu sem ég flyt hér gefst ekki tækifæri til að fara ítarlega yfir þau málefnasvið sem heyra undir félagsmálaráðuneytið, (HKF: … tvær svo.) jafnvel þó að við bætist tvær mínútur í lokin. Ég ætla samt að gera tilraun til að fara yfir stærstu hlutana og segja hér í upphafi að á þessu kjörtímabili hefur tekist að auka við þau málefnasvið sem heyra undir ráðuneyti félagsmála. Almennt hefur aukningin orðið talsvert mikil í einstaka málefnum og ætla ég að fara yfir það hér á eftir. Áður en ég geri það vil ég líka segja að það er alveg ljóst að við þær kringumstæður sem við búum nú er gríðarlega mikilvægt að okkur takist að standa vörð um viðkvæma hópa í samfélaginu og ég er mjög ánægður með að það sé ríkisstjórnin að gera. Það sjáum við í þessari fjármálaáætlun og það sjáum við í frumvarpi næsta árs, að jafnvel þrátt fyrir þessa tímabundnu niðursveiflu, sem er reyndar að dragast á langinn, er ljóst að ríkisstjórnin mun standa vörð um viðkvæma hópa. En eftir því sem þetta ástand dregst á langinn verður það stærri áskorun að ná að gera slíkt, eins og komið hefur fram í umræðu um ríkisfjármálin í dag.

Ég ætla að reyna að fara hratt yfir þau málefnasvið sem undir mig heyra í þessu frumvarpi. Það eru í fyrsta lagi málefni örorku og málefni fatlaðs fólks. Heildarfjármagnið sem rennur til þess málaflokks hefur aukist frá árinu 2017 úr 62 milljörðum í tæpa 75 milljarða á árinu 2020. Er gert ráð fyrir að það haldi áfram að aukast á tíma áætlunarinnar og verði komið upp í 87 milljarða á árinu 2025. Það er þá 25 milljarða aukning frá árinu 2018. Vissulega er þarna um að ræða fjölgun einstaklinga en þarna er líka aukning inn í málaflokkinn.

Varðandi málefni aldraðra er það sama upp á teningnum. Árið 2018 runnu 74 milljarðar til þess málaflokks. Á yfirstandandi ári, 2020, eru það um 85 milljarðar samkvæmt fjárlagafrumvarpi þessa árs. Gert er ráð fyrir að það haldi áfram að aukast á tíma áætlunarinnar og verði komið í 101 milljarð árið 2025. Eðlilega er það að verulegum hluta vegna lýðfræðilegrar þróunar, en engu að síður er þarna um aukningu að ræða. Frá 2018–2025, á sjö ára tímabili, er gert ráð fyrir aukningu upp á 25 milljarða kr.

Varðandi fleiri málaflokka má nefna fjölskyldumál þar sem undir heyra barnabætur, fæðingarorlof, stuðningur við fjölskyldur og börn, bætur vegna veikinda og slysa og málefni innflytjenda og flóttamanna. Á árinu 2018 runnu 33 milljarðar til þessa sviðs sem inniheldur alla þessa málaflokka. Núna, árið 2020, eru það 42 milljarðar og er gert ráð fyrir að í lok þeirrar fjármálaáætlunar sem við ræðum hér verði það komið í 48 milljarða, sem er 15 milljarða aukning á tímabilinu. Það er alveg ljóst að um tugmilljarða fjárveitingaraukningu er að ræða í þessum málaflokkum.

Þá eigum við eftir að ræða þann málaflokk sem ræður kannski hvað mestu um hvort okkur tekst að verja þetta, þ.e. vinnumarkað og atvinnuleysi. Árið 2018 runnu 20 milljarðar til þess málaflokks og er gert ráð fyrir því að árið 2021 renni 64 milljarðar til atvinnuleysisbóta. Ekki er gert ráð fyrir því á tíma áætlunarinnar til ársins 2025 að það verði komið niður í 43 milljarða. Það er enn 20 milljörðum meira en árið 2018. Þar liggur stærsta áskorunin í því hvort okkur tekst að verja hina liðina sem ég nefndi áðan, sem í eru viðkvæmir hópar; aldraðir, örorkulífeyrisþegar, fjölskyldur og annað sem skiptir máli, þ.e. hvort okkur tekst að ná atvinnustiginu upp. Það er það sem skiptir langmestu máli og sem verður langmest krefjandi á næstu árum, öll vinna sem tengist því. Ég hyggst nýta mínar seinni tvær mínútur til að fjalla sérstaklega um það, af því að hv. þm. Hanna Katrín Friðriksson nefndi það áðan.