151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[18:08]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þetta innlegg. Við höfum, í gegnum Vinnumálastofnun, verið að veita fjármuni til þess að byggja upp slík störf á undanförnum árum og höfum sett á þessu kjörtímabili aukna fjármuni í það. En það er alveg hárrétt að betur má ef duga skal í því efni. Það er áhyggjuefni að hið opinbera sé ekki nægilega kraftmikið í þessu og ég tek undir með hv. þingmanni. Fjármálaráðuneytið hefur sem ráðuneyti opinberra starfa haldið á því máli og verið að vinna tillögur að því sem eru því miður ekki komnar til framkvæmda, ekki að fullu.

Við höfum verið í samtali við Öryrkjabandalagið á þessu kjörtímabili um að stíga skref til innleiðingar á starfsgetumati. Markmiðið var á síðasta þingi að koma fram með einhvers konar lagabreytingar hvað það snertir sem menn gætu náð saman um. Það er alveg ljóst að eitt af því sem Covid hefur haft áhrif á var sú vinna. Það náðist ekki að klára hana á vorþingi. Það er eitt af þeim frumvörpum sem ég gerði ráð fyrir að yrði erfitt að ræða hér á Alþingi á þessum kosningavetri. Þess vegna höfum við verið að skoða aðrar leiðir í því sem krefðust ekki stórra lagabreytinga en stigin yrðu einhver ákveðin skref til að efla þá hugsun og hugmyndafræði sem er í þessari fjármálaáætlun og hefur verið samstaða um á þingi. Vonandi fáum við niðurstöðu í það innan tíðar.