151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[18:14]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Atvinnuleysi hér á landi hefur aldrei aukist jafnhratt og það stefnir í dýpstu kreppu í heila öld. Aukningin er langmest meðal ungs fólks sem og jaðarhópa en einnig kvenna sem virðast fara verst út úr þessu ástandi. Konur gegna annars konar störfum en karlar. Þær eru frekar í hvers konar umönnunar- og þjónustustörfum en síður í vega- og byggingarframkvæmdum.

Nú er hæstv. félags- og barnamálaráðherra einnig ráðherra vinnumarkaðsmála. 20% atvinnuleysi, mögulega 25% á næsta ári, kallar á skapandi hugsun. Við þurfum fyrst og fremst að skapa störf. Vinna, vinna, vinna er okkar verkefni. Við þurfum að skapa atvinnu um allt land. Í tillögum ríkisstjórnarinnar, sem voru afgreiddar á svokölluðum stubbi, voru fyrst og fremst skoðaðir möguleikar á að hvetja þá til náms sem eru komnir á atvinnuleysisskrá.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort það komi til greina í hans huga að fara í sérstakt átak um allt land, eins og farið var í á árunum eftir hrun, til að virkja þá sem eru komnir á atvinnuleysisskrá með því að styðja fyrirtæki til að ráða inn starfsfólk, að gerðir verði samningar við fyrirtæki um allt land, ekki bara svæðisbundið á einhverjum pínulitlum skika heldur um allt land, að stutt verði við fyrirtæki sem geta nýtt grunnatvinnuleysisbæturnar upp í laun fólks í 6–12 mánuði og þau þannig hvött til að ráða fólk til starfa, koma fólki í virkni og á launaskrá. Allir græða, atvinnuleitandinn, fyrirtæki, stjórnvöld og samfélagið allt.