151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[18:36]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Félagsmálaráðherra segir að þau séu ekki búin að útiloka neitt. En þetta er fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sem segir okkur, þingi og þjóð, hvernig stefna ríkisstjórnarinnar er, (ÞSÆ: Heyr, heyr.) ekki hver stefna ríkisstjórnarinnar verður kannski einhvern tímann seinna, heldur núna og næstu fimm árin.

Mig langar til að spyrja hæstv. félagsmálaráðherra hvort honum finnist það vera réttlætanleg krafa að lífeyrisþegar, sem treysta á opinbera framfærslu, fái sömu hækkun og lægstu laun samkvæmt lífskjarasamningunum. Einföld já- eða nei-spurning.

Önnur spurning til hæstv. félagsmálaráðherra: Hefur lækkun á persónuafslætti, sem gert er ráð fyrir samhliða breytingum á skattkerfinu um áramótin, áhrif á frítekjumörk lífeyris?

Svo langar mig að spyrja hæstv. barnamálaráðherra um stefnu um barnvænt Ísland, en í drögum að þeirri stefnu er að finna áform um að fullgilda þriðju valfrjálsu bókunina um barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem hæstv. barnamálaráðherra hefur sagst styðja. Það er líka nokkuð sem þingið þarf að samþykkja þegar allt kemur til alls. Þýðir það að barnamálaráðherra ætli að beita sér fyrir því að það þingmál komist loks úr nefnd og í atkvæðagreiðslu á þingi þrátt fyrir andmæli utanríkisráðuneytisins fyrr á þessu kjörtímabili?