151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[19:45]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hygg að ég og ráðherra deilum sýn á mikilvægi menntunar og skólastarfs og að menntun sé forsenda þess að hér þrífist gott samfélag. Hæstv. ráðherra vék hér að því að bætt hafi verið í hvað sum framlög varðar. En ekki er það nú alveg einhlítt. Það kemur til að mynda dálítið spánskt fyrir sjónir að framlög til framhaldsfræðslu dragast saman um 50 millj. kr., framlög til fræðslu- og símenntunarstöðva lækka um 30 millj. kr., framlög til íslenskukennslu fyrir útlendinga standa í stað, styrkir til framhaldsfræðslu dragast saman, Vinnustaðanámssjóður er lækkaður um 35 millj. kr. frá 2019 og Endurhæfingarsjóður er skorinn niður um 10%, 70 millj. kr. þar.

Í sjálfu sér ætlaði ég ekki að eiga orðastað við hæstv. ráðherra um þetta heldur hitt að fram kemur að til stendur, hvað varðar samninga og styrki til starfsemi á sviði lista og menningar, að skorið verði niður um 350 millj. kr. nú á milli ára og boðaður er 500 millj. kr. niðurskurður þar. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvernig hún sér fyrir sér að listir og menning í landinu muni þrífast þegar við þurfum einmitt svo sárlega á þeirri starfsemi að halda á komandi tíð.