151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[19:49]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra þessi svör og fullvissa hana um að ekki mun standa á stuðningi okkar í Samfylkingunni, og væntanlega annarra í stjórnarandstöðu, við að breyta áformum um stórfelldan niðurskurð til þessarar starfsemi.

Eins og kom fram í fyrirspurn hér áðan hjá hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni eru framlög til Ríkisútvarpsins að fara að lækka um 310 milljónir. Það þýðir 10% niðurskurð á næsta ári. Það er sagt vera vegna færri auglýsinga, eðlilega, og líka að færri kennitölur greiði útvarpsgjaldið, eðlilega kannski. Mig langar að heyra hæstv. ráðherra segja okkur frá því hvernig stofnuninni verður bætt þetta upp. Mig langar líka að spyrja hæstv. ráðherra um það hvað líði gerð þjónustusamnings við stofnunina.

Hæstv. ráðherra fór hér áðan nokkrum orðum um mikilvægi starfsemi Ríkisútvarpsins og ég held að við deilum þeirri sýn. Við áttum okkur á því að stofnunin hefur mjög mikilvægu almannahlutverki að gegna og nú á tímum þegar mikið er um tröllasögur og skröksögur sem fljúga um allt er ekki síður mikilvægt að hægt sé að treysta fréttaflutningi einhverrar stofnunar.

Mig langar að heyra hæstv. ráðherra segja mér aðeins frá hugmyndum sínum um þessa stofnun og hvað líði þjónustusamningi við hana.