151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[20:35]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Leikskólastigið hefur algjörlega skipt sköpum fyrir framvindu íslensks samfélags. Það er út af leikskólastiginu sem við sjáum miklu meiri jöfnuð á Íslandi og annars staðar á Norðurlöndunum. Leikskólastigið tryggir miklu öflugri atvinnuþátttöku kvenna og hefur gert það í gegnum tíðina.

Hv. þingmaður spyr hvort við ættum ekki að taka meiri þátt í mótun leikskólastigsins. Við gerum það að mörgu leyti. Við gerum það til að mynda með því að fara í stórsókn til að efla kennaramenntun á leikskólastigi, grunnskólastigi og framhaldsskólastigi. Við höfum séð mikla aukningu, við sjáum aukningu upp á 120% á milli ára í ásókn í kennaramenntun á leikskólastigi. Við höfum ekki séð svo mikinn áhuga á því námi í mörg ár og það er vegna þess að við fórum í markvissar aðgerðir til þess að styðja við leikskólastigið. Það er mjög brýnt að það stig sé mannað fólki með fagþekkingu til að styrkja það.

Verið er að gera marga mjög góða hluti. Ég skipaði starfshóp núna á þessu ári til að huga að því hvernig við getum styrkt það enn frekar, hvernig við getum fengið fleiri kennara inn á leikskólastigið. Má til að mynda breyta skipulagi leikskólastigsins með einhverjum hætti, brjóta það upp? Hvernig við getum gert það? En eitt er víst að þetta er gríðarlega mikilvægt skólastig og ég legg mikla áherslu á að námið fari þar fram í gegnum leik. Við eigum því mikið að þakka hvernig á þessum málum hefur verið haldið. En við getum svo sannarlega unnið í sameiningu að því að gera enn betur.