151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[20:50]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Aðeins um þessa nálgun hv. þingmanns. Ég met mikils að hann leggi sig fram um að vanda til þeirra sjónarmiða sem hann setur fram en það veldur mér vonbrigðum að heyra talað um að landbúnaðurinn sé vistaður í skúffu í sjávarútvegsráðuneytinu. Þetta er frasi sem búinn var til og á ekki nokkra einustu stoð. Aldrei hafa fleiri verið við störf í landbúnaðarráðuneytinu en núna án þess að það sé eitthvert sérstakt hólsefni. Og að heyra þetta er ekki gott.

Mér finnst það köld skilaboð til þeirra sem starfa í íslenskum landbúnaði og þeirra góðu hluta sem þar eru að gerast að íslenskur landbúnaður sé í nauðvörn. Það bara er ekki svo. Ég er t.d. nýkominn frá garðyrkjubændum og blómabændum í Reykholti. Þar er uppbygging fyrir hundruð milljóna á tiltölulega litlu svæði, gríðarleg bjartsýni og trú á að hægt sé að vinna landi og þjóð gagn og skapa verðmæti. Með sama hætti sjáum við á fleiri stöðum í landbúnaðinum fullt af fólki að leggja fram góða vinnu og gera góða hluti. Mér finnst það bara ekki sanngjarnt gagnvart þessu fólki að tala með þeim hætti að allt sé í mínus og stóru tapi.

Ég minni á að næsta endurskoðun búvörusamninga fer fram 2023. Það er ekki langt í það. Til að undirbúa þá erum við í ráðuneyti mínu m.a. að nýta þá vinnu sem hefur farið í endurskoðun búvörusamninganna núna fyrir mótun landbúnaðarstefnu fyrir Ísland sem ég vænti að geti orðið grundvöllur endurskoðunar samninga við bændur.