151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[20:54]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem hv. þingmaður nefnir að hún sat í starfshópi sem átti að gera tillögur um fiskveiðieftirlit á grundvelli skýrslu sem hv. þingmaður hafði forgöngu um að yrði unnin af Ríkisendurskoðun. Og þingið féllst á þá þingsályktunartillögu sem þar var borin upp.

Það er ekki nein sérstök ætlan mín að skera niður fiskveiðieftirlitið. Það hefur aldrei verið mín ætlan. Varðandi tillögur frá starfshópnum erum við að vinna með þær núna í ráðuneytinu. Við erum að reyna að koma hlutum þannig fyrir að við getum á þessum þingvetri lagt fram frumvarp sem tekur mið af þeim tillögum sem nefndin, sem hv. þingmaður nefndi hér áðan, gerir. Á þeim grunni munum við kostnaðarmeta það sem við erum að gera og væntanlega gera breytingar á fjármögnun einstakra þátta varðandi fiskveiðieftirlitið ef tilefni er til.

En ég hef sagt það áður og get alveg sagt það enn að mér finnst í raun að ekki þurfi endilega að vera samasemmerki milli þess að auka fjármuni til ákveðinnar starfsemi og að hún batni að sama skapi. Það þarf ekkert að vera bein lína þar á milli. Það getur líka vel verið að það komi í ljós, þegar við förum í gegnum þetta, að tækifæri sé til að vinna úr fjárveitingum með öðrum hætti en við höfum gert. En á þessu stigi hef ég engin áform uppi um að rústa fiskveiðieftirlitinu, ekki með neinum hætti. Ég bind þvert á móti meiri vonir við að þær tillögur sem þarna koma fram geti orðið til þess að styrkja eftirlitið með umgengni við auðlindina.