151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[21:10]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Ég vil spyrja hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra út í losun gróðurhúsalofttegunda frá landbúnaði og aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að stemma stigu við því. Á bls. 255 í fjármálaáætlun kemur fram, með leyfi forseta:

„Samkvæmt Umhverfisstofnun er áætlað að landbúnaður beri ábyrgð á 578 kt. af CO2-ígildum eða 12% af heildarlosun Íslands og hefur haldist því sem næst óbreytt sl. 30 ár. Þá er ekki tekið tillit til landnotkunar.“ — Þetta er atriði sem ég vil tala um sérstaklega, landnotkun.

Í áætluninni kemur einnig fram að fyrsta markmið og mælikvarði hjá ríkisstjórninni þegar kemur að loftslagsvænni landbúnaði sé að skilgreina, með leyfi forseta, „aðgerðir sem leiði til samdráttar í losun gróðurhúsalofttegunda vegna starfsemi greinarinnar“.

Hér velti ég fyrir mér hvort ríkisstjórnin sé bara á algerum byrjunarreit þegar kemur að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í landbúnaði vegna þess að við vitum að áætluð losun frá framræstu votlendi nemur um 9,3 milljónum tonna og illa farið land er talið losa allt frá 2–20 milljónir tonna. Hvers vegna eru þessir gríðarlega stóru losunarþættir hunsaðir í áætlunargerð ráðherra? Hvers vegna eru ekki komnir mælikvarðar? Er ekki fullmetnaðarlaust að tala bara um að við þurfum mögulega að fara að skoða hvað stemmi stigu við þessu þegar við vitum það og svörin liggja fyrir framan okkur? Er ekki miklu frekar kominn tími til aðgerða þegar kemur að framræstu votlendi og illa förnum jarðvegi?