151. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2020.

störf þingsins.

[10:49]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil líka tala um sóttvarnir eins og hv. þm. Hanna Katrín Friðriksson hér rétt áðan. Í hv. velferðarnefnd urðum við þeirrar gæfu aðnjótandi að fá þríeykið til fundar við okkur í morgun. Ég vil byrja á því að þakka þeim fyrir þeirra góða starf og þakka þeim fyrir að halda kúlinu, eins og sagt var á mínu heimili í gær af unglingnum, þakka þeim fyrir að vekja einhvern veginn hjá okkur traust á þeim og þeim aðferðum sem verið er að beita hér á landi, sem eru víðtækar og mjög strangar. Óreiða í upplýsingum er algjört lykilmein þegar kemur að samstöðu þjóðarinnar og samstaðan skiptir öllu máli. Það að ólíkar reglur gildi fyrir ólík landsvæði, eða eins og hv. þm. Hanna Katrín Friðriksson sagði áðan, ólíkar íþróttagreinar, veldur tortryggni gagnvart þeim ráðstöfunum og þeim aðgerðum sem verið er að grípa til.

Um helgina bárust fregnir um að líkamsræktarstöðvum um allt land yrði lokað vegna faraldursins og risu þá líkamsræktarfrömuðir á Akureyri upp og sögðu: En hér er ekkert smit. Er ekki hægt að loka stöðvunum á höfuðborgarsvæðinu? Nei, segir þríeykið, af því að við viljum reyna að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu smits um allt land. Það dugar lítt að loka bara hér og fá svo smitið aftur í fangið. Íþróttafélögin í dag eru einnig hugsi yfir þeim skilaboðum sem borist hafa því að nú má ekki leika innanhússíþróttir á höfuðborgarsvæðinu en þeir sem stunda sömu íþróttagreinar í Keflavík, í Borgarnesi, Njarðvík og Grindavík mega stunda áfram sínar íþróttir, algerlega óháð því hvar íþróttafólkið býr sem spilar með umræddum félögum. Þetta fær mig til að verða aðeins hugsi um það hvort við séum aftur að lenda í upplýsingaóreiðu eða regluóreiðu (Forseti hringir.) og ég held að stjórnvöld verði að grípa þarna inn í og láta skynsemina taka yfir en ekki póstnúmer.