151. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[11:55]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Fyrst varðandi þyrlukaup Landhelgisgæslunnar þá taldi ég það rökrétta ákvörðun að fresta því um eitt ár að taka þessa ákvörðun svo það væri hægt að nýta þá fjármuni sem annars hefðu farið í þetta í fjárfestingar innan lands en ekki í kaup á þyrlum utan að. Þessir leigusamningar okkar eru mjög hagstæðir og við getum leigt aðra þyrlu til að vera með þrjár fullbúnar þyrlur og fresta kaupum í einhvern tíma ef slík ákvörðun verður tekin á næsta ári. En það fer kannski eftir stöðu ríkissjóðs og fleira. Ég taldi þetta skynsamlegt því á sama tíma náum við sama markmiði, að halda þeirri stöðu Landhelgisgæslunnar sem við viljum, að hafa þrjár fullbúnar þyrlur. Það eru bara breyttar aðstæður sem orsaka þetta eins og ég hef farið yfir og þess vegna verður þetta metið upp á nýtt á næsta ári.

Varðandi vegabréfaeftirlit þá erum við í Schengen-samstarfi og í því felst ekki innra landamæraeftirlit eins og hv. þingmaður fer hér yfir. En það hefur þó verið aukið í almennt landamæraeftirlit hérlendis, m.a. í samstarfi við Schengen. Það upplýsingakerfi sem nú er verið að vinna að verður gjörbylting í þessum efnum fyrir öll lönd, sem er samofið upplýsingakerfi allra Schengen-ríkjanna, og mun væntanlega gjörbylta öllu eftirliti bæði innan og utan svæðisins.