151. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[13:05]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Varðandi samstarf atvinnulífs og stjórnvalda og tengsl atvinnulífs og stjórnvalda þegar kemur að loftslagsmálum tek ég undir það með hv. þingmanni að hlutverk stjórnvalda sé að búa til hvata fyrir atvinnulífið til að það eigi auðveldara með að taka þátt í hinni grænu umbyltingu sem við þurfum og erum að ráðast í. Þess vegna var m.a. kynnt fyrirætlan fyrir um tveimur vikum síðan um að ráðast í grænar fjárfestingar í tengslum við viðbrögð ríkisstjórnarinnar út af kjarasamningunum. Það er verkefni sem fer í gang núna í framhaldinu, að finna út sérstaklega með hvaða hætti hægt er auðvelda fyrirtækjum að ráðast í grænar fjárfestingar. Það skiptir gríðarlega miklu máli, ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni um það.

Það eru fjölmargir hvatar sem þessi ríkisstjórn hefur bæði viðhaldið og sett inn, ekki bara til þess að flýta orkuskiptum í t.d. vegasamgöngum, þeir eru þó margir, heldur líka til að reyna að breyta viðhorfi fólks þannig að það fari frekar að nota ferðamáta sem ekki krefjast bíls. Til dæmis má nefna að lagður hefur verið af virðisaukaskattur á rafhjólum, reiðhjólum og rafhlaupahjólum, enda höfum við séð fjölda þeirra á götum borgarinnar í Reykjavík margfaldast.

Mig langar aðeins að koma inn á það sem hv. þingmaður nefndi áðan um að viðhalda kerfum eða breyta. Ég tel að leiðin fram undan þar sé að byggja á þeim grunni sem við höfum núna varðandi frekari þekkingu sem byggir á GróLind, sem byggir á betra regluverki og lögum og byggir á því að við horfum til tilraunaverkefna sem við höfum verið að setja í gang, að vinna að loftslagsmálum með bændum þannig að til framtíðar horfum við til þess að stuðningur til bænda sé í miklu meira mæli tengdur við árangur í umhverfismálum.