151. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[14:14]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir umræðuna. Ég vil segja það varðandi biðlista og biðtíma og almennt um barna og unglingageðdeild Landspítalans að þetta er auðvitað eitt af okkar mikilvægustu stoðkerfum í samfélaginu og okkur ber að standa vörð um það. Ég veit að um miðjan september núna biðu níu börn eftir innlögn á legudeild BUGL eða barna og unglingageðdeildarinnar. Stærstur hluti innlagna eru auðvitað bráðainnlagnir eins og við þekkjum og þær gerast samdægurs, teljast til 80–90% allra innlagna. Þegar það er mjög mikið álag á bráðaþjónustunni þá lengist náttúrlega biðtími þeirra sem eru á almennum biðlista og biðtíminn getur verið frá viku til nokkurra mánaða. En það ber að geta þess í því sambandi að öll börn sem eru á biðlista eftir innlögn eru í virkri þjónustu göngudeildarinnar, og það er mikilvægt, þannig að þau fái þjónustu. Meðalbiðtími göngudeildarþjónustunnar er núna um sjö og hálfur mánuður.

Hér gildir náttúrlega það að við erum að reyna að efla þjónustu við börn í nærumhverfinu, á heilsugæslunum. Það er úti um allt land. Við settum 540 milljónir aukalega í geðheilbrigðismál núna á þessu ári og sama upphæð kemur á næsta ári, síðan 100 millj. kr. að auki við það árlega á gildistíma áætlunarinnar. Þannig að það er verið að beita öllum ráðum til að draga úr bið barna eftir þjónustu og við munum að sjálfsögðu halda þeirri vinnu áfram.